16.04.1930
Efri deild: 82. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í C-deild Alþingistíðinda. (989)

26. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Frsm. 1. minni hl. (Halldór Steinsson):

Það má segja um framkomu hv. 4. landsk. í þessu máli, að svo bregðast krosstré sem önnur tré. Allt fram á þennan fund taldi ég hv. þm. einn öruggasta fylgismann málsins, en nú vill hann allt í einu bregða fæti fyrir það. Því að það veit hv. þm. vel, að verði farið að samþ. brtt., er það sama og að fella frv. alveg. Jafnvel þótt málið kæmist svo langt fyrir þessu, að það yrði tekið fyrir aftur í hv. Nd., er það vitað, að meiri hl. þeirrar deildar er á móti því ákveðna atriði, sem brtt. fjalla um. Ef hv. þm. er málinu hlynntur, eins og hann segist vera, hví vill hann þá ekki gera það, sem unnt er, til að koma því fram? Nú er 2. umr. hér í hv. deild. Efast ég ekki um, að hæstv. forseti muni sýna þá sanngirni að taka málið til 3. umr. á nýjum fundi, að þessum loknum, ef hann fær áskorun um það frá meiri hluta deildarinnar. — Eftir snúning hv. 4. landsk. í málinu verður hann að fyrirgefa mér, þótt ég haldi, að honum hafi aldrei verið full alvara að fylgja því. Þótt eitthvað væri til í samkomulagi því, sem hv. þm. talaði um, get ég ekki séð, hvað það kemur þessu máli við. Frv. gæti alveg eins orðið að lögum í kvöld, þrátt fyrir það samkomulag.