16.04.1930
Efri deild: 82. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í C-deild Alþingistíðinda. (992)

26. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Frsm. 1. minni hl. (Halldór Steinsson):

Hv. 4. landsk. hefir hvorki getað sannfært mig né aðra, né þvegið sjálfan sig með þessari síðustu ræðu. Hv. þm. sagði áður, að þeir hv. þm. Ak. mundu greiða frv. atkv., þó að brtt. væru felldar. En nú skein það í gegn, að þeir mundu ekki fylgja frv., nema þeir fengju þessar brtt. fram. (JBald: Jú, jú!). Hvers vegna vill hv. þm. þá vera að hrekja frv. aftur til hv. Nd.? Hv. þm. hefir lagt á einhvern flótta í þessu máli, hvað sem veldur. Ef þeir jafnaðarmenn vilja málinu vel, er það einfaldasta leiðin fyrir þá að taka brtt. sínar nú aftur þegar í stað og biðja hæstv. forseta að taka málið til 3. umr. síðar í kvöld. Ef hv. framsóknarmenn eru ráðnir í því að láta málið ekki ganga fram, þá synja þeir um afbrigði frá þingsköpum. En ég hefi enga ástæðu til að halda, að þeir muni gera það. Aðeins einn þeirra hefir talað, og að vísu heldur á móti málinu, en það er engin sönnun þess, að þeir muni beita svo harðneskjulegum ráðum sem þeim, að neita að veita afbrigði um mál, sem meiri hl. d. fylgir.

Ég læt nú útrætt um þetta mál, og mun þetta vera síðasta aths. mín við þessa umr. Þó verð ég að lokum að leiðrétta þá meinloku hjá hv. þm. Ak., að framþróun kauptúnanna standi ekki í sambandi við hafnarmannvirki, sem þar eru gerð. Hv. þm. nefndi Vestmannaeyjar, og eru þær einmitt ágætt dæmi. Áður en höfnin kom, árið 1914, var fluttur út fiskur þaðan fyrir 585 þús. kr., en 1927 var útflutningurinn 4½ millj kr. Af þessum tölum má nokkuð marka mismun þann á aðstöðu, sem hafnirnar skapa.