16.04.1930
Efri deild: 82. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í C-deild Alþingistíðinda. (996)

26. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Frsm. 2. minni hl. (Erlingur Friðjónsson):

Ég vil undirstrika það, sem hv. 2. þm. S.-M. sagði, að þegar þessum hafnarfrv. var vísað til sjútvn., þá lágu 4 mál fyrir n., sem öll þurfti að afgreiða á undan. Og ég man ekki eftir, að neinn sérstakur áhugi kæmi fram hjá hv. þm. Snæf. fyrir því að taka hafnarmálin fyrr en þessum 4 málum væri lokið.

Við þessi hafnarmál var haft svo mikið, að þau voru tekin til meðferðar í sjútvn. þegar ég var bundinn á fundi í annari nefnd. Eflir þann fund skilaði hv. þm. Snæf. áliti sínu, og ég mínu nál. daginn eftir. Finnst mér því óþarft af honum að vera að gefa í skyn, að við meðnm. hans höfum lagt hömlur á, að þessi mál fái skjóta afgreiðslu.

Út af ummælum, sem nokkrir hv. dm. hafa haft um brtt. mínar við þessi frv., sem hér eru á dagskrá, að búið væri að fella í hv. Nd. samskonar brtt. við frv., skal það tekið fram, að engar slíkar brtt. hafa komið fram í Nd., og þá eðlilega ekki verið felldar þar. Þær brtt., sem meiri hl. sjútvn. flutti við þessi atriði í Nd., sem ég nú flyt brtt. um við þetta frv., voru þannig, að framlag ríkissjóðs yrði 1/3 alls kostnaðar, ábyrgð ríkissjóðs fyrir 1/3, og hlutaðeigandi hafnarsjóður eða kaupstaður eða sjávarþorp leggi strax fram 1/3 hluta kostnaðar. Mín brtt. er þannig, að það standi óbreytt aðalatriðið, sem samþ. var í hv. Nd., að ríkið leggi fram 2/5 hluta kostnaðar, en aftur á móti ábyrgist ríkið 2/5 hluta, en hlutaðeigendur leggi fram 1/5. Þetta er nákvæmlega sama og búið er að samþ. í Nd. í hafnarlögum fyrir Dalvík. Þessar brtt. eiga því í raun og veru ekki við annað en hafnargerð á Akranesi og Sauðárkróki. Að hverju leyti er það óeðlilegt, vil ég spyrja, að sömu ákvæði séu í hafnarlögum fyrir Sauðárkrók og Akranes, sem þetta þing er búið að samþykkja fyrir hafnargerð í Dalvík? Ég tel í rauninni sjálfsagðan hlut, að öll þessi hafnarlög séu samræmd.

Menn hafa verið að deila um afgreiðslu þessara mála í sjútvn. Í raun og veru er það hinn allra skemmsti tími, sem sjútvn. hefir getað varið þessum frv. til athugunar, til þess að geta með nokkrum rökum mælt með þeim eða móti. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir, að hægt sé að rannsaka þessi mál á skemmri tíma en sem svarar tveimur nefndarfundum hvert þeirra, og hefði þá þurft þrjár vikur til að afgreiða öll málin frá n., en n. varð að afgreiða þau öll á einum hálftíma fundi. Og ef á að ávíta n. fyrir það, að hafa ekki lagt eins mikinn áhuga í að koma þeim fram eins og frekast var mögulegt, þá er það algerlega óréttmætt. Væri miklu fremur hægt að áfellast n. fyrir það, að hafa íhugað þessi mál of lítið. Og það er vitanlegt, að sjútvn. hefir í raun og veru treyst því, að hv. Nd. hafi athugað þessi hafnarmál svo vel, að n. í hv. Ed. gæti réttlætt það að láta þau koma fram án þess eiginlega að athuga þau nokkuð. Því að það þarf ekki að stafa af langri athugun á málinu, þótt ég fyndi, að atriði í 2. gr. væri þannig lagað, að sjálfsagt væri að breyta, ekki sízt þegar búið er að afgreiða hafnarlög með nákvæmlega samhljóða ákvæðum og ég fer fram á að setja í þessi lög. Að þessi mál þurfi fremur að daga uppi í þinginu, þó að þessi breyt. sé gerð á þeim, það get ég ekki skilið. Það liggja ekki fyrir þessum málum meiri erfiðleikar en það, eftir að þessi hv. d. hefir afgr. þau, að vera tekin til einnar umr. í Nd.; sennilega er hægt að afgreiða þau þar á 5 til 10 mínútum. Hér í Ed. þarf sama tíma til að afgreiða þau óbreytt eins og þó þessar breyt. yrðu á þeim gerðar.