30.03.1931
Neðri deild: 37. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

13. mál, tilbúinn áburður

Hannes Jónsson:

Þessi ákvæði, sem gilt hafa um endurgreiðslu á flutningskostnaði á landi á tilbúnum áburði, hygg ég hafi reynzt alstaðar illa og erfiðlega í framkvæmdinni. Því ber ekki að neita, að menn hafa mismunandi aðstöðu í þessu efni. Þeir, sem lengst búa frá kaupstöðunum, standa verr að vígi en hinir, sem nær búa, um notkun þessarar voru. En það er ekki einstakt með þetta. Það er á mörgum sviðum öðrum, sem menn verða að gjalda þess, að þeir hafa verri aðstöðu en þeir, sem búa nær kaupstöðum.

Þetta frv. miðar að því að upphefja þann aðstöðumun, sem stafar af mismunandi fjarlægðum frá höfnum eða öðrum erfiðleikum við flutning á áburði. En þá væri ekki síður þörf á að taka hann til greina á öðrum sviðum, t. d. við lánveitingar úr byggingar- og landnámssjóði. Það er ólíkt þægilegra að byggja upp fyrir þá menn, sem eiga skammt að flytja, en hina, sem búa uppi til dala eða úti til nesja og verða að flytja byggingarefnið sumpart langan veg og sumpart illan yfirferðar. Ég vil segja, að þegar um slíkt er að ræða, þá er aðstöðumunurinn enn tilfinnanlegri en í þeim tilfellum, sem þetta frv. fjallar um.

Annað atriði er það, að enganveginn er einhlítt að miða flutningsstyrkinn við vegalengdirnar einar. Margt annað kemur þar til greina. Flutningsörðugleikarnir standa ekki ávallt í réttu hlutfalli við vegalengd þá, sem um er að ræða. Þar ræður mestu hvort vegurinn er góður eða illur. En n. hefir sýnilega ekki séð aðra leið til þess að takmarka styrkinn við en vegalengdirnar einar.

Ég hefi átt tal um þetta mál við fjölda manna, m. a. við formenn margra búnaðarfélaga, og hefir álit þeirra eindregið hnigið í þá átt, að þessi breyt. svari ekki kostnaði, því að menn verði aldrei ánægðir, heldur lendi allt í endalausu reiptogi um styrkinn. Ég skal taka það fram, að þetta álit byggist alls ekki á neinni togstreitu milli hinna pólitísku flokka í þinginu, því að menn úr báðum flokkum eru á þessari skoðun. Menn telja þessa tilhögun aldrei verða nema til óþæginda á ýmsa lund, og að hún skapi alls ekki fullt réttlæti í úthlutun styrksins, enda ókleift að finna nokkurn mælikvarða, sem styrknum skuli úthlutað eftir.

Ég mun ekki fjölyrða um þetta frekar, enda átti þetta einungis að skoðast sem grg. fyrir atkv. mínu. Það er langt frá því, að ég sé andvígur þessu máli í sjálfu sér, eða að ég telji þessa menn ekki vel styrksins verða, heldur eru það örðugleikar á framkvæmdinni, sem valda því, að ég get ekki verið málinu fylgjandi, a. m. k. ekki í þessari mynd.