21.02.1931
Efri deild: 6. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í C-deild Alþingistíðinda. (1003)

21. mál, innflutningur á sauðfé

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er nú hvorttveggja, að frv. þessu fylgja mjög greinilegar aths., bæði um einstakar gr. frv. og sögu málsins, og svo hefir það verið lengi á dagskrá með þjóðinni og sótt allfast, m. a. á Búnaðarþinginu í allmörg ár. Það gerist því engin þörf fyrir mig að hafa mörg orð um frv., enda býst ég við, að hv. þdm. vilji vera við í hv. Nd., þegar hæstv. fjmrh. nú gerir grein fyrir afkomu ársins sem leið.

Eins og hið sögulega yfirlit, sem frv. fylgir, ber með sér, þá hafa landsstj. hver fram af annari óttast þá hættu, sem af slíkum innflutningi mundi leiða, og af þeim ástæðum aldrei orðið við óskum manna í þessu efni. Á meðan Magnúsar Einarssonar dýralæknis naut við, lagðist hann mjög fast á móti innflutningi sauðfjár, og þar sem hann var ráðunautur stj. um þessi mál, þá var ekki nema eðlilegt, að landsstj. tæki í sama streng. Ég fylgdi líka dæmi fyrrv. stj., og t. d. á Búnaðarþingi 1929 hindraði ég, að mál þetta yrði þá sent Alþingi. Þá var líka verið að setja lög um varnir gegn gin- og klaufaveiki, og fannst mér, eins og því máli horfði við, að það stinga í stúf við slíkar varnir að fara þá að leyfa innflutning sauðfjár.

En þar sem nú er með frv. þessu, að dómi sérfræðinga, gerðar öflugar ráðstafanir til þess að fyrirbyggja þá hættu, er menn óttuðust áður, að mundi leiða af slíkum innflutningi, þá hefi ég ekki treyst mér til að standa lengur á móti þessu máli og vil því fyrir mitt leyti opna hann möguleika, sem ætla má, að leiði af sér aukinn arð fyrir landbúnaðinn og horfir til mikilla hagsbóta fyrir bændur landsins.

Ég vil gera að till. minni, að málinu verði að umr. lokinni vísað til hv. landbn. og vona ég, þótt málið sé all umfangsmikið, að nefndin athugi það gaumgæfilega.