30.03.1931
Efri deild: 37. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í C-deild Alþingistíðinda. (1007)

21. mál, innflutningur á sauðfé

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég þakka hv. landbn. fyrir mjög góðar undirtektir. Hún hefir fyrst og fremst orðið mér sammála um það, að hér sé um svo mikinn ávinning að ræða, að rétt sé að leggja út í þá áhættu að stofna til þessa innflutnings. Sömuleiðis hefir hún í öllum aðalatriðum orðið mér sammála um, með hverjum hætti þetta skyldi gert. Þykir mér vænt um undirtektir n. og vona því, að frv. nái fram að ganga í þessari hv. d.

Hv. n. hefir á þskj. 286 borið fram nokkrar brtt., sem allar ganga í þá sömu átt, að rýmka ákvæði frv. um innflutning. Fyrst er sú till., sem vafalaust er til bóta, að telja ekki upp með nöfnum, hvaða sauðfjárkyn megi flytja inn. j frv. eru nefnd þau kyn, sem mest var talað um á Búnaðarþingunum. Ennfremur vill n. fella niður þann stað, sem nefndur er í 5. gr. til einangrunar fjárins, og er þetta sjálfsagt hvorttveggja rétt.

En aftur á móti eru það hinar tillögurnar, sem ég er ekki viss um, að séu réttar. Þar er að vísu aðeins um heimildir að ræða, sem ekki er víst, að verði notaðar, og á að vísu að mega treysta því, að hvaða stj. sem með völdin fer, taki tillit til fagmannanna og noti þetta ekki gálauslega

Fyrri heimildin er um innflutning á karakulafé. Ég skal ekki rökræða um það. Þegar frv. var samið, kom mjög til orða, hvort ætti að taka þessa heimild upp í frv., því að ráðunauturinn í sauðfjárrækt, Pall Zóphoníasson, lagði mikla áherzlu á það og benti á, að sum ár gæti verið um talsverðan gróða að ræða af þessu. En ég treysti mér ekki til að fara fram á svo rúma heimild við þingið.

Það er réttilega fram tekið af hv. 2. landsk., að þetta er „lúxus“vara, og afleiðingin af því er sú, að undir sumum kringumstæðum falla þessar vörur í verði, svo að ef til vill verður enginn gróði af. Hinsvegar er þetta sérstaklega arðvænlegt fyrir þau héruð, þar sem fjörubeit er og bændur verða fyrir tjóni af lambamissi á vorin. Ég stend nú ekki vel að vígi með að mæla á móti þessu, því að ég er fulltrúi fyrir það kjördæmi, sem einna mest gagn mundi hafa af þessu. Ég mun láta þetta hlutlaust, þó að ég sé ekki óhræddur við þetta, enda treysti ég því, að ekki verði til þessa stofnað, nema með mjög mikilli aðgæzlu.

Loks er till. n. um, að ekki sé ákveðið í frv., að sóttkvíunartíminn skuli vera 2 ár, heldur séu stj. gefnar frjálsar hendur um það, eftir því sem hún ráðgast við menn, er hafa sérþekkingu á þessu sviði. Þetta mun orka tvímælis. Ég gæti haldið, að í Nd. væru ekki fáir þm., sem þætti þarna of rúm heimild. En það situr ekki á mér, sem á að fá heimildina, að mæla á móti henni, en hinsvegar er vafasamt, vegna þess að hér er um mikla hættu að ræða, hvort á að slaka svo á klónni, sem n. leggur til.

Ég vil endurtaka þakklæti mitt til hv. n. og leggja að öðru leyti á vald hv. d., hvort hún vill rýmka ákvæði frv.