30.03.1931
Neðri deild: 37. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

13. mál, tilbúinn áburður

Hannes Jónsson:

Ég stend upp til þess að bera af mér sakir. Hv. þm. Borgf. bar mér á brýn hlutdrægni í þessu máli og gaf í skyn, að afstaða mín til málsins væri af þeim rótum runnin. Þetta er tilhæfulaust með öllu, enda mælt gegn betri vitund. En hv. þm. Borgf. ætti sízt á þennan veg að mæla. Hann veit, að hann hefir miklu betri aðstöðu til heimflutninga en flestir aðrir, sem búa lengra frá höfnum, en þó vill hv. þm. ekkert gera til þess að jafna þennan aðstöðumun þar, sem hann er tilfinnanlegastur, en í þessu tilfelli, þar sem hann er óverulegastur og skiptir engu máli, vill hv. þm. sýna lit á að gera hann að engu. Þetta er skinhelgi hjá hv. þm., og hann ætti sízt að bregða öðrum um þær ávirðingar, sem hann er sjálfur þunglega haldinn af, enda er þessi afstaða hv. þm. ekki sprottin af góðgirni til máls og manna, heldur af siðferðishræsni og yfirdrepskap.