20.02.1931
Efri deild: 5. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í C-deild Alþingistíðinda. (1052)

28. mál, veiting prestakalla

Halldór Steinsson:

Ég get ekki verið sammála hæstv. dómsmrh. um það, að breyt. sú á vali presta, sem frv. ræðir um, sé aðeins fyrirkomulagsbreyt. Mér finnst að með því að samþ. þá breyt. væri stigið stórt spor aftur á bak. Það er einkennilegt, að nú, þegar sú stefna er yfirleitt ríkjandi, að rýmka á ölum sviðum almennan kosningarrétt, skuli stj. flytja frv., sem skerðir svo mjög rétt safnaðanna sjálfra til að kjósa sér prest, en leggur valdið til þess að mestu leyti undir sóknarn. Þó að söfnuðirnir kjósi sóknarn., getur vel komið fyrir, að hún leggi til, að „kallaður“ sé prestur, eins og það er nefnt í frv., sem söfnuðurinn yfirleitt er ekki allskostar ánægður með. Að vísu eiga safnaðarmeðlimirnir að hafa rétt til að kvarta undan vali sóknarn., en bæði er það, að talsverðan hluta safnaðarins þarf til þess, að slíkt sé tekið til greina, og svo er það eins og gengur, að menn fara ekki æfinlega að hreyfa kærum, þó að menn séu ekki allskostar ánægðir.

Ég vildi vekja athygli n. þeirrar, sem væntanlega fær þetta mál til athugunar, á þessu atriði, og vil ég mælast til, að hún íhugi rækilega, hvort ekki muni óheppilegt að breyta því fyrirkomulagi á kosningu presta, sem núgildandi lög ákveða.