24.03.1931
Efri deild: 32. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í C-deild Alþingistíðinda. (1058)

23. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Jón Jónsson:

Ég á hér litla brtt. á þskj. 248. Ég viðurkenni fyllilega, að bygging fyrir Háskóla Íslands er náttúrlega nauðsynjamál og þarf að framkvæmast áður en langir tímar líða, því að vitanlega býr háskólinn við of þröngan húsakost. En það er vandi að velja um, hvað skuli bíða, þegar verkefnin eru óþrjótandi. Undanfarið hefir alloft bólað á því, að menn hafa viljað binda eftirfarandi þing og stj. um fjárframlög. Þetta getur verið gott í einstöku tilfellum. Þegar verið er að efla atvinnuvegina, er það ekki eins aðgæzluvert og þegar féð á að ganga til þess, sem engan beinan arð gefur. Eins og nú stendur, virðist mér búið að hlaða þannig á fjárl. gjöldum, að ef ekki árar betur en nú, verði lítið afgangs að fráteknu því, sem þegar er fastbundið. Það verður því að fara gætilega. Nú stendur líka svo á, að kreppa er skollin yfir, og þess vegna hefir mér þótt gætilegra að leggja til, að dregið sé nokkuð úr skyldunni, sem frv. leggur á fjárveitingavaldið, og að því verði frestað til 1936 að byrja þurfi á framkvæmdum, en megi svo eftir ástæðum láta bygginguna standa yfir allt að 10 árum. Ég geri ráð fyrir, að það skipti ekki öllu fyrir stofnunina, hvort á byggingunni stendur lengur eða skemur, heldur hitt, að allt verði sem fullkomnast, þegar það kemur. Þetta álít ég gætilegra, en ekki geri ég það að neinu kappsmáli.