24.03.1931
Efri deild: 32. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í C-deild Alþingistíðinda. (1059)

23. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég vil þakka hv. n., bæði meiri hl. og minni hl., fyrir sínar till., sem eru áframhald af því, sem d. samþ. í fyrra, og eru líklegar til að þoka málinu áfram. Ég álit, að sú varfærni, sem kemur fram hjá hv. 3. landsk., sé alveg eðlileg, eins og útlitið er sem stendur. En ég get ímyndað mér, að þó að brtt. yrði samþ., þyrfti það ekki að breyta neinu. Það má nú í sjálfu sér ekki gera ráð fyrir örari fjárframlögum en eftir lögunum, en ef vorhugur yrði í þeim mönnum, sem lifa á árunum 1936–1940, mundu þeir verða búnir að gera þetta eins fljótt og frv. gerir ráð fyrir eins og það er er nú. Ég viðurkenni fyllilega rök hv. 3. landsk., en vona hinsvegar með meiri hl. n., að kreppan standi ekki svo lengi, að það saki, þó að frv. sé samþ. eins og það er.

Ég skal taka það fram, að þegar ég tók til þetta tímatakmark, þá var það gert í sambandi við þá breytingu, sem ef til vill verður um líkt leyti, að þjóðin taki í sínar hendur öll sín mál. Þá fannst mér það mjög óviðkunnanlegt, að háskólinn væri húslaus, þegar við stigjum það stóra spor. Þetta er vitanlega í engri mótsögn við það, sem kom fram hjá hv. 3. landsk. Getur vel verið, að þjóðinni verði það erfitt að taka í einu á sig kostnaðinn af utanríkismálum sínum og háskólabyggingu. En þjóðin hefir nú einu sinni lýst yfir vilja sínum í sjálfstæðismálunum og verður að taka því, sem af því leiðir. Það er bundið mörgum erfiðleikum fyrir 100 þús. manna í stóru landi að ætla að halda hér uppi alhliða menningarlífi. En það dugir ekki að láta einn hlekk slitna út úr. Ríkið hefir látið reisa útvarpsstöð, sem kostar meira en þessi bygging og nær líka til fleiri manna til að byrja með, og var nauðsynleg. Ég minni á þetta til að undirstrika það, að þótt háskólinn geti lifað nokkur ár áfram eins og hingað til í þröngum húsakynnum, þá er það svo erfitt, að ekkert nema getuleysið getur afsakað, að við eigum enga byggingu fyrir hann. — Ég þakka n. fyrir till., sem ég þykist viss um, að verði bæði í bráð og lengd til að greiða fyrir þessu máli.