28.03.1931
Neðri deild: 36. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í C-deild Alþingistíðinda. (1068)

23. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Þetta frv., sem hér kemur fram fyrir hv. þd., er nálega shlj. frv. um háskólabyggingu, sem kom fyrir hv. Ed. í fyrra, en var svo seint á ferðinni, að það náði ekki til hv. Nd. á því þingi. Hv. Ed. samþ. frv. í fyrra og nú sömuleiðis með þeim lítilsháttar breyt., er það hafði tekið.

Ég ætla ekki að fjölyrða mikið um efni þessa frv. það er öllum kunnugt, að háskólinn hefir alla sína tíð, frá því hann var stofnaður 1911, verið húsnæðislaus, og það er öllum ljóst, að þó að Alþingi hafi lánað skólanum húsnæði hingað til, þá er það fyrirkomulag mjög bagalegt fyrir baða aðilja.

Hinsvegar hefir það nú gengið svo á síðustu árum, að háskólabygging hefir orðið að þoka fyrir öðrum stórbyggingum, sem ríkið hefir lagt í og hafa verið enn nauðsynlegri, og eru það sérstaklega spítalar víðsvegar á landinu. Nú er svo komið, að ætla má, að búið sé að framkvæma hið nauðsynlegasta á því sviði, og þá virðist mér, að háskólinn sé sú næsta stóra bygging, sem þjóðin eigi nú að stefna kröftum sínum að.

Hinsvegar tel ég, að þar sem hér er um svo afarstórt mál að ræða, og mál, sem enn er lítið undirbúið, þá veiti ekki af næstu 3-4 árum til undirbúnings þessarar byggingar eða bygginga. Virðist mér hagkvæmt að nota einmitt þá krepputíma, sem nú standa yfir, til undirbúnings þessa máls. Þó hefi ég ekki viljað hugsa mér, að endanlegar framkvæmdir mættu dragast lengur en til 1940, og því er þetta ártal sett í frv. Ég hefi orðið var við það, að sumir hv. þm. vilja telja þetta frv. þýðingarlítið, þar sem engin fjárveiting sé ákveðin í því til byggingarinnar. En ég vil halda því fram, að jafnvel þótt Alþingi hefði nú haft t. d. 600 þús. kr. til þess að láta í bygginguna, þá hefði samt ekki verið byrjað á framkvæmdum á þessu ári eða næsta ári. Undirbúningur þessa máls er mikill og hann þarf að verða vel framkvæmdur, áður en raðist er í svo stórt fyrirtæki.

Ég vil í sambandi við það, sem ég segi hér um væntanlega háskólabyggingu þakka bæjarstj. Rvíkur fyrir góðar undirtektir hennar um að láta ríkið hafa hagkvæma loð fyrir háskólann. þessi lóð, sem er um 10 ha. að stærð, er áföst við það svæði, þar sem fyrirhugaður skemmtigarður Rvíkurbæjar á að vera. Lóð þessi er svo rúm, að hún ætti að nægja um fyrirsjáanlega framtíð, enda er það mjög nauðsynlegt atriði í málinu, og frv. er byggt á þeim forsendum. Við, sem nú lifum, höfum litla hugmynd um, hvaða kröfur verða gerðar til háskóla eftir 50, hvað þá 100 eða 200 ár. Þess vegna þarf háskólinn að vera þannig skipulagður í upphafi, að hann feli í sér skilyrði til vaxtar, svo að síðari kynslóðir geti haldið áfram því verki, sem við byrjum á. Ef svo færi, að þetta frv. næði samþ. hér í hv. pd., virðist mér, að næsta stigið yrði að vera að semja við Rvík um lóðina. Þar næst gæti verið eðlilegt að taka fyrir stúdentagarðinn, sem fyrir nokkru hefir verið ákveðið að byggja og sem m. a. hefir beðið fyrir þá sök, að ekki er enn ákveðið, hvar háskólinn á að standa. Annars, þegar það er ákveðið, virðist ekkert til fyrirstöðu því að reisa stúdentagarðinn, áður en sjálfur háskólinn er byggður.

Ég vil svo að síðustu taka það fram, að ég vona, að hv. þd. sjái nauðsyn á undirbúningi þessa máls og taki því þessu frv. vel. Óska ég, að því verði að loknum umr. vísað til menntamn.