28.03.1931
Neðri deild: 36. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í C-deild Alþingistíðinda. (1071)

23. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Magnús Jónsson:

Mér þykir vænt um að heyra ræður þessar. Mér virðist hæstv. Dómsmrh. og hv. 1. þm. Skagf. ekki greina verulega á annað en þarf, að hver eggjar annan á að sinna málinu sem bezt.

Mér þykir vænt um, að ráðh. hefir hreyft þessu máli, þó ekki sé hægt að neita því, að margir vilja ýta við málinu og benda á, hver vilji þingsins sé í þessu efni. Ég hefi ekkert á móti því, þó hv. 1., þm. Skagf. þyki langur tími að bíða, en við höfum nú beðið svo lengi, að mönnum þykir væntum að eygja nú takmarkið, þó bíða þurfi í 3 ár. Þetta frv. er að ýmsu leyti ónógt, eftir vilja þeirra, sem finna sárt til þess, hver þörf er á háskóla, og hefði ég viljað óska, að þessu frv. hefði verið breytt þannig í meðförunum, að í því stæði, að reisa skyldi bygginguna á árunum 1934–40. Ég held, að ef þörfin er orðin svo brýn væri áhættulaust að segja þetta. Ríkið á eftir að byggja svo mikið, að það er ótrúlegt, ef ekki er búið að reisa fyrir 1940 þá byggingu, sem fyrst var um talað. Ég er ekki fjarri því, að erfitt væri að hefjast verulega handa um þetta fyrr en 1934, því það þarf mikinn undirbúning, áður en ráðlegt er að byrja; fyrst er að koma á samningum við Rvík; það hefir sýnt sig, að það er ekki vandalaust að velja betri stað en hjá Skólavörðunni, þótt annarsstaðar finnist máske fleiri, eða suður á melum, og þykir ekki ótrúlegt, þótt þeir staðir kæmu til álita.

En svo er eitt atriðið enn. Það gæti farið svo, að eftir þessi 3 ár sé málið ekki meira undirbúið en áður; það þarf beinlínis að hefjast handa um það, að þessi undirbúningur verði hafinn, því oft skjóta menn málum frá sér með þeirri afsökun, það þau séu ekki nógu undirbúin, og dregst þannig oft í mörg ár að koma þeim í framkvæmd, af þeirri einföldu ástæðu, að málin undirbúa sig ekki sjálf. T. d. er reisa skal byggingu sem háskólann, þá þarf að vanda svo geysilega allar teikningar, að ómögulegt er annað en að mikið starf og tími fari í það. Ýmsar þjóðir hafa verið að reisa háskóla hjá sér og safnað dýrmætri reynslu. Það er ekkert vit í því að reisa byggingu, sem með tíð og tíma mundi kosta milljónir kr., án þess að hugsa um það, að það þarf að byrja þannig, að hvergi þurfi að skeika út af, ekki einusinni í framtíðinni. Ég hefi skotið því fram í grein, sem ég skrifaði í Súdentablaðið, að ekkert vit væri að reisa byggingu þessa, fyrr en búið væri að senda mann í rannsóknarför til annara landa. Kostnaðurinn yrði auðvitað mikill, en lítilfjörleg mistök yrðu miklu dýrari en þessi för.

Ég hafði hugsað mér, að sendur yrði helzt sá húsameistari, sem ætlazt væri til að teiknaði húsið, og helzt viljað að með honum yrði fulltrúi fyrir háskólaráðið.

Ég er glaður yfir því, að þrátt fyrir öll vandræðin er ekki farið að reisa Stúdentagarðinn, því að það hús á að njóta starfs þeirra manna, sem undirbúa málið. Ég veit ekki, hvort hægt væri að taka upp ákvæði í þessa átt í frv., eða hvort nokkurt fé verður veitt strax, en háskólaráðið hefir í bréfi því, sem það sendi ríkisstj., farið fram á 10 þús. kr., og með því látið í ljós sinn vilja um það, að hafizt verði handa í þessu máli. Það þyrfti sennilega að auglýsa samkeppni til að sjá, hver líklegastur væri til þess að leysa þetta verk vel af hendi. Að fela alltaf einum og sama húsameistara að reisa allar byggingar, sem ríkið tekur þátt í, finnst mér mjög óráðlegt, að þeim manni ólöstuðum, sem hingað til hefir gert það. Það er hætt við, að þær byggingar verði allar með sama svipnum; hinsvegar gæti verið, að hann gerði beztan uppdrátt, og er þá rétt að fela honum það.

Ég hefi aðeins sagt þetta til að þakka þeim, sem leggja gott til málsins, og gefa þær bendingar, sem gætu ef til vill stuðlað að því, að þessi 3 ár verði notuð þannig, að hafizt verði handa 1934 að reisa húsið.