28.03.1931
Neðri deild: 36. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í C-deild Alþingistíðinda. (1076)

23. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég vildi segja fáein orð út af ræðu hv. þm. V.-Húnv. Hann hélt því fram, að háskólabyggingin mundi fara langt fram úr því að kosta 600 þús. kr. Þetta kann að vera rétt, og hefði hv. þm. getað rökstutt þetta með því, að t. d. Landsspítalinn hafi orðið mun dýrari en gert var ráð fyrir. En hinsvegar er það alveg rétt hjá hv. 1. þm. Reykv., að með þeim byggingarkostnaði, sem er hér í Rvík, mætti gera byggingu fyrir 600 þús. kr., sem gera mundi mikið gagn. Og þegar á það er litið, að ekki er gert ráð fyrir heimavist við þennan skóla, heldur aðeins kennslustofum fyrir um 150 nemendur, þá held ég, að þetta sé vel framkvæmanlegt. Ég skal þessu til sönnunar geta þess, að skrifstofubygging landsins, sem raunar varð dýrari en gert var ráð fyrir, kostaði um 350 þús. kr. Það er ekki efi á því, að ef til dæmis háskólinn hefði fengið þá byggingu, þá hefði það verið meira en nóg fyrir hann skóla. Þetta sýnir, að fyrir þessar 600 þús. kr. mætti áreiðanlega koma upp húsi fyrir skólann, sem fullnægja mundi þörf hans, eins og hann er nú.

Í frv. og grg. er það skýrt tekið fram, afi ætlazt sé til þess, að háskólinn verði, þegar fram líða stundir, í mörgum byggingum. Það, sem hér er farið fram á, er að byggja aðalhúsið, og það miðast við brýnustu þörf skólans. Bókasöfn, rannsóknarstofur og nýjar kennslustofur geta svo komið síðar í nýjum byggingum.

Ég skal því játa það, að þessi fjárupphæð er engan veginn nægileg til þess að fullnægja þörf skólans í fjarlægri framtíð. En hér er heldur ekki verið að hugsa um það. Mér finnst, að við eigum að láta komandi kynslóðir um það, hvernig byggingunni verður hagað þá, og mér finnst ekki rétt að taka of mikið fram fyrir hendurnar á þeim, hvað þetta snertir.