09.03.1931
Efri deild: 19. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í C-deild Alþingistíðinda. (1079)

102. mál, myntlög

Fjmrh. (Einar Árnason):

Það eru nú um það bil 10 ár, síðan röskun komst á verðgildi íslenzkrar krónu. Fyrri ár þess tímabils fell krónan stöðugt og komst mjög langt niður. Síðan tók hún að hækka, og varð hækkunin mikil á tiltölulega skömmum tíma. Seinni part ársins 1925 stöðvaðist hún og hefir síðan haldizt óbreytt.

Þessum síðastl. 5 árum hefir verið allmikið um það hugsað og rætt, með hverjum hætti gengismálið yrði bezt leyst. Og einkum í byrjun komu fram tvær ákveðnar stefnur. Önnur var sú, að hækka krónuna upp í hennar fyrra gildi, en hin að lögákveða gildi hennar eins og það var þá. Árin liðu og málið leystist ekki, jafnvel þótt allir fyndu til þess, að fyrr eða síðar yrði eitthvað að ákveða um þetta efni. Eftir því sem tíminn leið og viðskiptalífið fór að laga sig eftir gildi krónunnar, urðu þeir fleiri og fleiri, sem töldu sjálfsagt, að ekki yrði breytt frá því, sem komið var um verðgildið. Mönnum hraus hugur við því, að leggja út í nýja hækkun krónunnar með öllum þeim geysilegu erfiðleikum, sem því fylgja fyrir atvinnuvegi þjóðarinnar.

Það er því nú komið svo, að óhætt er að fullyrða, að mikill meiri hluti hugsandi manna þjóðarinnar er sammála um, að ekki komi til mála raunveruleg hækkun krónunnar.

En þótt menn séu sammála um þetta, þá er þó sjálft gengismalið óleyst af hálfu löggjafarvaldsins, vegna þess, að hækkunarmenn hafa komið fram með sérstaka leið í málinu, sem á að koma í stað raunverulegrar hækkunar. Þetta er einskonar millispor og er á þá leið að verðfesta núgildandi gjaldeyri þannig að taka upp aftur gömlu Norðurlandakrónuna og umreikna allar gildandi kröfur og skuldbindingar.

Frv. um þetta efni var lagt hér fram í deildinni fyrir nokkrum dögum. Þegar

hv. 1. landsk. mælti fyrir því frv., lét hann uppi það álit, að flestir mundu vera horfnir frá hækkunarstefnunni, en taldi hinsvegar, að frv. sitt væri heppilegasta lausnin á málinu. Ég verð nú að segja það, að ástæður þær, sem hv. þm. færði fyrir kostum frv. og þessarar úrlausnar, voru ákaflega veikar. Og því verður ekki neitað, þó að hann sneiddi vandlega hjá því, að margir gallar og agnúar eru á því að leysa gengismálið á þennan hátt. En út í það fer ég ekki frekar að svo komnu.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er sú lausn málsins, sem núverandi stj. hefir alltaf haldið fram og fylgir enn. Og þó að stjórnin sjálf hafi ekki fyrr borið slíkt frv. fram, þá hefir þó málið með vitund hennar og samþykki áður verið borið fram í þinginu í þeirri mynd, sem það hefir í þessu frv. Frv. er samhlj. því, sem borið var fram í Nd. á síðasta þingi af hv. þm. V.-Ísf. o. fl., en komst þá skammt áleiðis af sérstökum ástæðum, sem ekki þýðir að ræða nú, en öllum hv. þm. er kunnugt um.

Ástæður fyrir frv. ætla ég ekki að rekja, málið er svo kunnugt og margrætt í þinginu á undanförnum árum. Ákvörðun gengisnefndar er prentuð sem fylgiskjal, og auk þess hefir verið útbýtt meðal þm. Áliti um gengismal Íslands, eftir hinn fræga fjármálafræðing, próf. Gustav Cassel. Fjallar álit hans aðallega um þær tillögur, sem felast í frv. hv. 1. landsk., og ég hefi áður drepið á.

Ég vil sérstaklega vekja athygli hv. d. á þessu áliti próf. Cassels. hér talar maður, sem fyrst og fremst stendur fyrir utan og ofan allt þref íslenzkra stjórnmálaflokka, og auk þess er viðurkenndur sem einn allra glöggskyggnasti fjármála- og hagfræðingur, sem nú er uppi. Þessi maður er ekkert hikandi og fer ekki dult með, hvað Íslendingum beri að gera í gengismálinu. Og hans álit er í fullu samræmi við þetta frv. og stefnu stj. Prófessorinn talar svo skýrt og ákveðið, að ég get ekki stillt mig um að lesa hér upp niðurstöðu hans í málinu, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrir Ísland er það því ótvírætt hagkvæmlegast að halda sinni núverandi mynteining óbreyttri. Kostir þess verða enn ljósari, þegar athugað er, hvílíkir feikna erfiðleikar því eru samfara að breyta til um mynteiningu. Þessir erfiðleikar eru í rauninni svo miklir, að ekkert land ætti að leggja það á sig, nema af alveg þvingandi ástæðum.

En ef Ísland nú þrátt fyrir allt þetta skyldi ákveða að taka upp nýja mynteiningu með sama gullgildi og Norðurlandakrónurnar hafa, þá er rétt að framkvæma þá breytingu samstundis. Sú hugmynd, að unnt sé að draga úr erfiðleikunum með því að fresta hinni endanlegu breytingu, styðst ekki við annað en þann almenna veikleika að halda, að erfiðleikarnir verði minni við það að slá þeim á frest. Alveg sérstaklega varhugaverð sýnist sú hugmynd vera, að Ísland hafi tvennskonar gjaldeyri í umferð í senn um lengri tíma. þesskonar „paralellmyntfotsystem“ er algerlega óhafandi og ætti ekki undir neinum kringumstæðum að koma til greina“.

Nú er mér það vel ljóst, að enginn einstakur stjórnmálaflokkur þingsins er nógu sterkur til að leysa þetta mál út af fyrir sig. En mér finnst ekki vonlaust, að ná megi samkomulagi um að leysa málið sem líkast því, eða alveg á þann hátt, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég tel sjálfsagt, að frv. verði vísað til fjhn., einmitt þeirrar n., sem fékk hitt frv. til meðferðar, og þá vil ég mega vænta, að hún geri allt, sem hún getur bezt, málinu til lausnar.