30.03.1931
Neðri deild: 37. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

13. mál, tilbúinn áburður

Sigurður Eggerz:

Mér finnst þessar brtt. n. vera mjög góðar, og ég hygg, að ég muni að sjálfsögðu greiða þeim mitt atkv. á sínum tíma. Ástæðan til þess, að ég stóð upp, var aðeins sú, að mér datt í hug að beina því til n., hvort henni sýndist ekki, að færa mætti niður vegalengdartakmarkið fyrir styrkveitingu, t. d. í 25–30 km. úr 35 km., eins og það er í brtt. n. Sannleikurinn er sá, að víða í héruðum geta verið mjög slæmir vegir innan við 35 km. frá kaupstað, og virðist þá eigi með öllu sanngjarnt, að þeir fái engan styrk, er þar búa. Yfirleitt eru uppástungur n. góðar og miða til bóta, en ég vildi aðeins skjóta því til hv. n., hvort hún vildi ekki taka þessa bendingu mína um takmörkun vegalengdar til greina fyrir 3. umr. Það er aðeins sanngirniskrafa, sem ég geri ráð fyrir, að n. taki til greina, en að öðrum kosti mundi ég gera um það brtt. fyrir 3. umr.