09.03.1931
Efri deild: 19. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í C-deild Alþingistíðinda. (1080)

102. mál, myntlög

Jón Þorláksson:

Ég hefi ákaflega lítið að athuga við það, sem hæstv. fjmrh. sagði frá eigin brjósti. Efni frv. er kunnugt áður, og það er líka kunnugt áður, að hæstv. stj. hefir viljað fara þessa leið til úrlausnar gengismálinu, þó að hún hafi raunar ekki sýnt neinn áhuga yfirleitt á því, að koma fram nokkurri úrlausn málsins það, sem af þessu kjörtímabili er. Frv. þetta hefir komizt á þingins borð, ef svo mætti að orði komast, eitthvað tvisvar sinnum, en verið látið við það sitja.

Ég vildi segja fáein orð viðvíkjandi því áliti, sem hæstv. fjmrh. sagði, að próf. G. Cassel nyti sem hagfræðingur. Ég get alveg skrifað undir þau ummæli. Hann varð a. m. k. fyrstur manna hér á Norðurlöndum til þess að skilja orsakir og afleiðingar gengisbreytinganna og setja fram svo, að skiljanlegt væri öðrum en sérfræðingum, hvað gerðist, þegar peningamal Norðurálfunnar komust á ringulreið á stríðstímunum og eftir þá.

Hann sýndi mjög virðingarverðan vísindalegan skarpleika, með því að gera grein fyrir sambandi orsaka og afleiðinga gengissveiflanna, sem snerta mjög hagsmuni fjöldans, en sem menn yfirleitt skildu þá ekkert í. En hann let sér ekki nægja hinn vísindalega hróður, og gerðist því sjálfboðaliði sem ráðgjafi þjóðþinga og stjórnarvalda um það, hvaða ráðstafanir skuli gera, þegar gjaldeyrir fellur í verði. Og ráðið var það sama og hann gefur okkur nú: að stýfa gjaldeyrinn.

Fyrst og fremst réð hann Svíum til að stýfa, en þeir vildu ekki hlusta á hann. Þá réð hann Dönum til hins sama; fór hann þangað fyrirlestraferð og ritaði blaðagreinar um málið. En Danir vildu ekki fara að ráðum hans. Og Norðmenn fengust ekki heldur til að stýfa. Nú erum við einir eftir, svo að hann hefir ekki aðra til að halda að áliti sínu. Og það er ekki nema mannlegur breyskleiki, þó að honum væri nú orðið það metnaðarmal að finna einhverja, sem fara vildu að ráðum hans í þessu máli.

Þetta álitsskjal próf. Cassels, sem hæstv. fjmrh. las upp úr, er fremur stutt — hann hefir sennilega ekki nennt að hafa fyrir að rita langt og ítarlegt mál –og mér virðist það vera mestmegnis fullyrðingar, sem hann reynir ekki til að færa rök fyrir. Mér virðist það einkenna allt það, er ég hefi séð eftir próf. Cassel og fer í þá átt að fá þjóðirnar til að fara að hans ráðum í gengismálunum, að hann kemur aldrei inn á rök andstæðinga sinna. Það gerir hann ekki heldur hér, hann fullyrðir, að þetta og þetta sé ófært, en færir engin rök fyrir sínum málstað.

Það er vert að athuga, hvaða menn það eru yfirleitt í þjóðfélögunum, sem fastast hafa staðið gegn tillögum próf. Cassels um stýfingu. Það eru mennirnir, sem venjulega eru kallaðir peningamenn, þeir sem mestu raða um fjármál þjóðanna, forráðamenn bankanna og annara peningastofnana. Þeir hafa allsstaðar staðið fastast á móti stýfingu gjaldeyrisins, þar sem peningamálin voru ekki komin í svo mikla óreiðu, að hækkun var ókleif.

Það er mjög eðlilegt, að þessir menn, sem bera ábyrgð á starfsemi bankanna, hafa ekki getað fylgt próf. Cassel, að því er snertir úrlausn hans á gengismálinu, þó að þeir viðurkenni hann sem mikinn vísindamann. Rök þeirra er víða hægt að finna, en þótt maður leiti í ritum próf. Cassels um þetta efni, finnast ekki neinar tilraunir til að hrekja röksemdir andstæðinga hans.

Það, sem ég hygg, að hafi verið afgerandi um afstöðu bankamanna yfirleitt til þessa máls, er meðvitund þeirra um það hlutverk sitt og skyldu að ávaxta og varðveita það fé, sem þeim er trúað fyrir. Það þarf ýmis skilyrði til þess, að það sé hægt, en fyrsta grundvallarskilyrðið er það, að ríkið bregðist ekki þeirri skyldu að halda peningalögum sínum óbreyttum.

Það er vitanlega ómögulegt fyrir bankana að varðveita fé manna, ef ríkið skellir á stýfingu, sem færir gildi innstæðanna niður.

Bankamennirnir líta svo á, að það sé að grafa burtu undirstöðu peningastofnana og bankastarfsemi, ef gripa þarf til stýfingar. Og þar sem gjaldeyririnn er stýfður einu sinni, má alltaf búast við, að gripið verði til stýfingar aftur undir svipuðum kringumstæðum. Þegar svo er komið, er hætt við, að traust bankanna fari að minnka, og verður þá lítið úr starfsemi þeirra, ef engir þora að trúa þeim fyrir fé sínu lengur. Um þessar afleiðingar af stýfingu hefir próf. Cassel aldrei viljað rökræða. Hann lítur aðeins á augnabliksástæðurnar og segir, að eins og sakir standi, sé stýfing bezt fyrir alla. Hinir segja, að ekki beri eingöngu að líta á það, hvað þægilegast sé í svipinn, heldur eigi að varðveita grundvöllinn undir heilbrigða fjármálastarfsemi í framtíðinni. Að viðhalda verði trausti manna á bönkunum, svo að menn vilji láta þá ávaxta fé sitt; á því byggist öll lánastarfsemi og allar þær framkvæmdir, sem tengdar eru við notkun lánsfjár.

Hæstv. fjmrh. sagist, að próf. Cassel stæði utan við þras íslenzkra stjórnmála, og er það auðvitað gott. En hann getur þrátt fyrir það ekki kallazt óvilhallur dómari í því efni, hvaða leið sé bezt að fara í gengismálinu. Hann hefir verið einn hinn fremsti bardagamaður á því sviði í nágrannalöndunum, og um leið beðið flesta ósigra. Það er ekki nema eðlilegt, að hann haldi enn fast við sínar tillögur. En við megum ekki, þótt próf. Cassel sé mætur vísindamaður, ganga út frá því sem sjálfsögðu, að hans skoðun sé hin eina rétta, og að andstæðingar hans, sem alltaf hafa orðið ofan á í baráttunni, hafi allir rangt fyrir sér.

Ég veit ekki, hvort það er að kenna óskýrri hugsun höfundarins, eða lélegri þýðingu á skjali þessu, að í því virðist ruglað saman hugtökum, þannig að sama orðið er notað á víxl um tvö hugtök. Í því, er hæstv. fjmrh. las upp, er sagt, að Íslendingum sé hagkvæmast „að halda sinni núverandi mynteiningu óbreyttri“. Hvaða frv. fer fram á að halda núverandi mynteiningu óbreyttri? Stjfrv. fer í þá átt, að breyta núgildandi myntlögum. Við athugun á álitsskjalinu má sjá, að sumstaðar, þar sem nefnd er mynteining, er átt við íslenzku pappírskrónuna. Þetta getur stafað af ónákvæmri þýðingu. En mér finnst það óþarfi af íslenzku stj., þó að íslenzka pappírskrónan hafi nú haldið sama gengi í 5–6 ár, að hún skuli vera búin að gleyma því, að lögum samkv. er til íslenzk mynteining, sem hefir sama gildi og mynteiningar hinna Norðurlandaþjóðanna.

Það virðist ástæða til að minnast á þetta, þegar hæstv. stj. er farin að tala um að greiða borðfé konungs í „dönskum krónum“. Er þá vitanlega meiningin að greiða það í íslenzkum gullkrónum, sem enn er lögleg mynteining. Við höfum nú tvennskonar íslenzka krónu: lögákveðnu gullkrónuna og svo pappírskrónuna, sem notuð er í viðskiptum manna á milli.

Það eru litlar ástæður gegn verðfestingar frv. okkar hv. 1. þm. G.-K., sem koma fram í álitsskjali próf. Cassels. Hann leggur mjög á móti því, að Ísland hafi „tvennskonar gjaldeyri í umferð í senn um lengri tíma“. Frv. okkar fer ekki fram á að hafa tvennskonar krónur í umferð um lengri tíma, heldur aðeins þann stytzta tíma, sem þarf til að koma breytingunni á og til þess að menn fái áttað sig á henni.

Það skyldi gleðja mig mjög, ef eitthvað mætti leggja upp úr síðustu orðum hæstv. fjmrh., er hann óskaði eftir, að samkomulag næðist um úrlausn þessa máls. Hann sagði að vísu: á þann hátt, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, eða líkan hátt. Ég veit ekki að vísu, hvort nokkur von er um það fyrir hæstv. fjmrh., að málið fáist leyst á þann hátt, sem frv. hans gerir ráð fyrir. En það voru orðin „eða á líkan hátt“, sem bentu til þess, að hæstv. fjmrh. sé ekki fráleitur að vinna að samkomulagi, og sem gætu verið tilefni til yfirvegunar og tilrauna til að ná samkomulagi um endanlega úrlausn á þessu máli.

Ég ætla, með tilliti til þessara síðustu ummæla hæstv. fjmrh., að geyma allar deilur við hann um þetta mál og láta nægja að sinni það, sem ég hefi nú sagt út af álitsskjali próf. Cassels.