30.03.1931
Neðri deild: 37. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (109)

13. mál, tilbúinn áburður

Frsm. (Einar Jónsson) [óyfirl.]:

Ég skal svara fyrir hönd n. fyrirspurn hv. þm. Dal. um það, hvort n. muni fús til að stytta takmarkið um vegalengdina viðvíkjandi styrknum úr 35 km. niður í 20 km. Ég hygg, að til muni vera þeir menn í n., er gjarnan vildu stytta eitthvað vegalengdartakmarkið, en n. fór í tillögum sínum mikið eftir því, er henni þótti sennilegt að mundi ná samþykki þingsins. Í Ed. var flutt till. um það að hafa takmarkið 30 km., en sú till. var felld, af því að það þótti of lágt. Aftur var þetta mál rætt á nýafstöðnu búnaðarþingi og þar samþ. að leggja til, að vegalengdin skyldi framvegis miðuð við 40 km.

Landbn. þótti nú sennilegt, að ekki þýddi að hafa takmarkið neðar en 35 km., þar sem hærra takmarkið, 40 km., hafði verið samþ., en lægra takmarkið, 30 km., var fellt. Af þessum ástæðum tel ég, að n. muni ekki sjá sér fært að breyta till. sínum í þessu efni, þó að ég geti hinsvegar sagt það fyrir sjálfan mig, að ég gæti verið því hlynntur.