08.04.1931
Neðri deild: 41. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í C-deild Alþingistíðinda. (1091)

32. mál, ræktunarsamþykktir

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Eins og nál. á þskj. 278 ber með sér, hefir landbn. orðið sammála um að mæla með frv. þessu með nokkrum breytingum.

Í grg. frv. er tekið fram um stefnu þess og tilgang, svo að óþarft er fyrir mig að fara rækilega út í það efni. Eins og menn vita, er tilætlunin með frv. þessu, ef að lögum verður, að heimila sérstökum sveitum að gera samþykktir um ræktun býlanna. Er tilgangur flm. sá, að í þeim sveitum, er slíka samþykkt gera og hefjast handa um framkvæmdir, verði jarðirnar ræktaðar á fáum árum, svo að allur heyskapur á óræktuðu landi geti horfið úr sögunni. Og þetta á að nást með samtaka átökum sveitarbúa sjálfra og stuðningi ríkissjóðs.

Ennfremur er það nýmæli upp tekið að skylda landeiganda, þótt ekki búi á jörðinni, til þess að taka þátt í þeim kostnaði, sem ræktun þessi hefir í för með sér.

Hvort tilgangur hv. flm. næst, þó frv. þetta verði að lögum, verður reynslan ein að skera úr. En hitt er ekkert efamál, að þessi tilgangur, sem ég hefi nefnt, er góður.

Nefndin býst við, að í þeim sveitum, þar sem ræktun býlanna er komin vel á veg og búnaðfarfélög hafa starfað áður með góðum árangri, þá sé ekki þörf slíkra aðgerða, sem frv. fer fram á. En fyrir þær sveitir, sem dregizt hafa aftur úr um ræktunarframkvæmdir, sýnist þarna opnuð leið, svo að þær geti hafizt handa og bætt úr því á fáum árum, sem þær hafa dregizt aftur úr. Að vísu er ekki hægt að fullyrða neitt um það fyrirfram, hvernig þetta muni gefast; þar verður reynslan að skera úr, eins og á öllum öðrum sviðum.

Hér er aðeins um heimildarlög að ræða fyrir hinar einstöku sveitir, og þó svo kunni að fara, að minna gagn verði að þessu heldur en nú er búizt við, þá virðist ekki mikið í húfi, þó að frv. þetta verði að lögum. Því sá n. ekki ástæðu til að gera margar breytingar og hefi ég heldur ekki margt um þær að segja.

Ef slíkur ræktunarsamþykktir verða gerðar í einhverri sveit og jafnframt verður hafizt handa um framkvæmdirnar, þá er því ekki að neita, að lagðar eru allmiklar kvaðir á íbúa sveitarinnar. Þess vegna er áríðandi, að sem flestir, og helzt allir, sem í sveitinni búa, vilji taka á sig þessar kvaðir og gangi af fúsum vilja undir ákvæði samþykktarinnar. Eins og frv. er úr garði gert, þá er óvenjulega vel frá þessu gengið, eftir því sem vant er um slík heimildarlög.

Ákvæði frv. gera ráð fyrir, að ekki sé hægt að koma á slíkum samþykktum, nema 3/4 ábúenda sveitarinnaar sæki fund og þarf þá samþykki 4/5 fundarmanna til þess að settar verði ræktunarsamþykktir. Er því hér um óvanalega mikinn meiri hluta að ræða, eftir því sem gert er ráð fyrir í öðrum lögum um svipaðar heimildir.

N. vill þó búa enn betur um þetta og leggur því til í 1. brtt. sinni, að 4/5 ábúenda sveitarinnar þurfi að sækja fund og 5/6 af þeim að samþykkja. Með því vill n. tryggja, að slíkar ræktunarsamþykktir verði ekki gerðar, nema eindregið fylgi ábúenda sveitarinnar sé með því, og er þetta gert svo sem hægt er með þessari brtt.

10. gr. frv., 4. lið, er talað um, að ræktunarkostnaðurinn leggist á býlin „eftir réttri tiltölu“. N. er ekki vel ljóst hvað þetta þýðir og vill því skýra þetta ákvæði, svo að ekki sé um að villast. Leggur hún því til með 2. brtt. sinni, að ræktunarkostnaðurinn skiptist niður á býlin eftir kostnaði við ræktun hvers þeirra, enda virðist það sanngjarnast.

Þá kem ég að aðalbreytingu n., sem er um það, hvernig fara skuli um jarðræktarstyrk til framkvæmda þeirra, sem frv., ef að lögum verður, gerir ráð fyrir. Í frv., eins og það liggur fyrir, er ekkert ákveðið um þetta. Ég býst nú raunar við, að þess hefði heldur ekki þurft, því að hér er um framkvæmdaratriði að ræða, sem Búnaðarfélag Íslands gat ráðið, að skipta styrknum eftir eðli framkvæmdanna, og mundi þá búa sér til reglur þar um. frv. er gert ráð fyrir, að landeigandi annist sumar framkvæmdirnar, en ábúandi aðrar. Aftur á móti er gert ráð fyrir þeim framkvæmdum, sem báðir aðilar annast, en engin bein ákvæði í frv. um, hvernig þá skuli skipta styrknum.

Nefndin leggur því til í fl. brtt. sinni, að um skipti á jarðræktarstyrk milli landsdrottins og leiguliða, vegna þess hluta framkvæmdanna, er um getur í 15. gr. 2. og 3. tölulið, skuli ákveða í reglugerð, er atvmh. setur, að fengnum tillögum Búnaðarfélags Íslands. í sambandi við þetta skal ég minnast á 3. brtt. n., þar sem n. leggur til, að enginn jarðræktarstyrkur greiðist til þess hluta framkvæmdanna, er ríkissjóði er ætlað að kosta, en í þess stað sé 1/5 hluti af ríkissjóðsframlaginu ekki afturkræfur, þannig að eigendur jarða geti leyst af þeim afgjaldakvöð þá, er getur í 10. gr., 6. lið, með því að leggja sjálfir fram í upphafi 4/5 hluta þess kostnaðar, eða með því að leysa til sin afgjaldskvöðina síðar með 20-faldri upphæð hennar, í stað 25-faldri, sem annars ætti að vera. Álítur n., að þetta mundi stuðla mjög að því, að afgjaldskvaðirnar yrðu leystar af jörðunum, og telur hún, að það væri báðum hentugt, ríkissjóði og eigendum jarðanna.

4. brtt. er aðeins orðabreyting til skýringar.

Í 5. brtt. er lagt til, að hafi framlag landsdrottins verið greitt með lánsfé, beri leiguliða að greiða þá vexti, er sannanlega hvíla á framlaginu, þó hærri séu en 4%.

Þegar lánsfé er notað til framkvæmdarinnar, virðist n. sanngjarnt, að landsdrottinn fái þá í hækkuðu eftirgjaldi það, sem hann raunverulega verður að borga af láninu í vexti, jafnvel þó að það sé hærra en 4 af hundraði.

Ég var búinn að minnast á seinustu brtt. í sambandi við þá þriðju og þarf ekki að endurtaka það. Ég held svo, að ég hafi gert nokkurnveginn grein fyrir þessum fáu brtt. n.