08.04.1931
Neðri deild: 41. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í C-deild Alþingistíðinda. (1093)

32. mál, ræktunarsamþykktir

Jón Sigurðsson [óyfirl.]:

Ég hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, ekki þó af því, að ég sé mótfallinn brtt. n., ég tel þar yfirleitt vera til bóta. En ég tel frv. vera gagnslítið eða gagnslaust til þess að ná þeim tilgangi, sem er stefnt að, sem sé að allt tún á landinu verði orðið slétt og véltækt innan fárra ára. Ég tel það gagnslaust, af því að ég er sannfærður um, að bændur kjósa heldur að vinna þessi verk hver í þeim félagsskap, sem þar er fyrir hendi, heldur en að taka á sig stóra skuldabagga, sem óumflýjanlega hlýtur að myndast hjá mjög mörgum. Ég þykist sannfærður um, að bændur muni verða ófúsir til að þröngva sveitungum sínum til að taka á sig erfiðari fjárhagsbagga en þeir eru menn til að standa undir. En það er ávallt svo í hverju sveitarfélagi, að þar eru fleiri eða færri fátækir menn, sem alls ekki eru færir um að taka slík útgjöld á sig. Slíkir menn verða auðvitað ófúsastir á að gangast undir slíka samninga, og ef heimildin væri notuð, þá mundi þeim verða þröngvað til þess að gera það samt, sem þeir ef til vill væru ekki menn til.

Allt þetta og margt fleira hygg ég að verði þess valdandi, að þessi heimildarlög verði bara dauður bókstafur, eins og ýms fleiri heimildarlög, sem þingið hefir sett. Ég viðurkenni fullkomlega, að tilgangurinn sé góður, en ég hefi ekki minnstu trú á þessari leið, og það mun líka sýna sig, að markinu verður ekki náð með slíku móti. Ég tel aftur á móti aðra leið álitlegri en þá, sem hér er farið fram á. Ég hallaðist þess vegna frekar að því, að ekki væri hrapað að því að afgreiða málið á þessu þingi, heldur yrði stj. falið það til frekari íhugunar, af því að það er nýtt fyrir þinginu og mikilsvert, að það sé vel athugað í alla staði. En meiri hl. n. sýndist rétt að leyfa frv. að ganga áfram og fá að reyna sig. Mér var það vitanlega ekkert kappsmál, svo að ég læt það afskiptalaust, en tek það fram, að það er sannfæring mín, að það sé meinlaust og gagnslaust, eins og það nú er. Brtt. n. mun ég allar styðja, því að ég tel þær til tvímælalausra bóta, og er í þeim nokkurt öryggi gegn því, að mönnum verði þröngvað til þess að gera það, sem þeir eru alls ófærir til fjárhagslega.