14.04.1931
Sameinað þing: 5. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í B-deild Alþingistíðinda. (1098)

Þingrof

fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Þar er borin hefir verið fram í sameinuðu Alþingi vantraustsyfirlýsing til núv. stj., flutt af hálfu Sjálfstæðisflokksins og vafalaust við fylgi alls þess flokks, og hinsvegar er fullvíst og yfirlýst, að Jafnaðarmannaflokkurinn á Alþingi, sem veitt hefir ríkisstj. hlutleysi til þessa þings, hefir nú tekið ákvörðun um að greiða vantraustsyfirlýsingu atkv., þá er það fyrirfram vitað, að vantraustsyfirlýsingin nær samþykki meiri hluta sameinaðs Alþingis —

Þar er samvinna á víðtækara sviði milli Jafnaðarmannaflokksins og Sjálfstæðisflokksins verður að teljast í fullu ósamræmi við alþingiskosningarnar, er fram fóru 9. júlí 1927 og ákváðu í aðalatriðum skipun núverandi þings —

Þar eð það er þó fram komið, að slík samvinna milli Jafnaðarmannaflokksins og Sjálfstæðsflokksins er þegar hafin, m. a. um það að leiða í lög víðtækar breytingar á kjördæmaskipun landsins

Þar eð því annarsvegar er yfir lýst í aðalmálgagni Jafnaðarmannaflokksins, að sá flokkur muni hvorki styðja Sjálfstæðisflokkinn til stjórnarmyndunar né veita honum hlutleysi til þess, og af því er ljóst, að þessir tveir flokkar geta nú ekki myndað pólitíska stjórn, og hinsvegar er því yfir lýst af þingmanni úr miðstjórn Sjálfstæðisflokksins á fundi í Nd. Alþingis í gær, að það væri með öllu óráðið, hvað við tæki eftir samþykkt vantraustsyfirlýsingarinnar — Þar eð telja má fullvíst, að mesta truflun yrði á störfum þingsins vegna samþykktrar vantraustsyfirlýsingar, þannig að málum þingsins yrði aðeins fáum lokið, en þingtíminn eigi að síður mundi dragast mjög úr hófi fram, en hinsvegar mætti hafa full not af störfum þessa þings á mörgum sviðum á nýju þingi síðar á árinu —

Þar er kjörtímabil er nálega liðið og senn liðin fjögur ár, síðan þjóðin hefir haft tækifæri til að láta vilja sinn koma fram við almennar kosningar —

— þá þykir, að öllu þessu athuguðu, stjórnskipulega rétt og í fyllstu samræmi við reglur í öðrum þingræðislöndum að leita dómsúrskurðar þjóðarinnar með því að áfrýja nú þegar þeim málum, sem milli bera hinna pólitísku flokka, til dómstóls kjósendanna í landinu og efna til nýrra kosninga.

Skal það tekið fram, að frá þessum degi og til kosninganna lítur stjórnin á aðstöðu sína sem stjórnar, er starfar til bráðabirgða. Og undir eins og kunnugt er orðið um úrslit hinna nýju kosninga, mun Alþingi stefnt til nýs fundar í samráði við formenn andstöðuflokkanna.

Í samræmi við allt það, sem nú hefir verið tekið fram, hefi ég af ráðuneytisins hálfu borið fram tillögu um þetta efni við h. h. konunginn.

Í gærkvöldi veitti ég viðtöku símskeyti frá konungsritara um að konungur samdægurs hefði undirritað bréf, er svo hljóða:

„Ver Christian hinn tíundi, af guðs náð konungur Íslands og Danmerkur, Vinda og Gauta, hertogi í Slésvík, Holtsetalandi, Stórmæri, Þéttmerski, Láenborg og Aldinborg,

Gerum kunnugt: Með því að forsætisráðherra af hálfu ráðuneytis vors þegnlega hefir borið upp fyrir oss tillögu um að rjúfa Alþingi það, sem nú er, og þar sem vér höfum í dag allramildilegast fallizt á tillögu þessa, þá bjóðum vér og skipum fyrir á þessa leið:

Alþingi það, sem nú er, er rofið.

Eftir þessu eiga allir hlutaðeigendur sér þegnlega að hegða.

Gert á Christiansborg 13. apríl 1931. Undir vor konunglega hönd og innsigli. Christian R.

Tryggvi Þórhallsson.

Opið bréf

um að Alþingi, sem nú er, sé rofið“.

„Vér Christian hinn tíundi, af guðs náð konungur Íslands og Danmerkur, Vinda og Gauta, hertogi í Slésvík, Holtsetalandi, Stórmæri, Þéttmerski, Láenborg og Aldinborg,

Gerum kunnugt: Með því að vér höfum með opnu bréfi, dagsettu í dag, rofið Alþingi, sem nú er, þá er það allramildilegastur vilji vor, að nýjar almennar óhlutbundnar kosningar skuli fara fram 12. júní næstkomandi.

Fyrir því bjóðum ver og skipum svo fyrir, að almennar óhlutbundnar kosningar til Alþingis skuli fara fram nefndan dag.

Eftir þessu eiga allir hlutaðeigendur sér þegnlega að hegða.

Gert á Christiansborg 13. apríl 1931. Undir vor konunglega hönd og innsigli.

Christian R.

Tryggvi Þórhallsson.

Opið bréf

um nýjar óhlutbundnar kosningar til Alþingis“.

Samkvæmt þessu lýsi ég því yfir, að þetta Alþingi Íslendinga, sem háð er eitt þúsund og einu ári eftir að hið fyrsta Alþingi var það að Þingvöllum, er rofið.