19.02.1931
Neðri deild: 4. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í C-deild Alþingistíðinda. (1100)

6. mál, tollalög

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég hefi ekki margt um þetta frv. að segja. Mþn. í tolla- og skattamálum hefir undirbúið það, eins og frv. um tekju- og eignarskatt og frv. um verðtoll.

Aðalbreytingin, sem frv. fer fram á, er sú, að gengisviðaukanum er bætt við tollinn. Samkv. því falla niður lögin um gengisviðaukann, og þess vegna fylgja þessu frv. tvö önnur, frv. til l. um vitagjald og frv. til l. um afgreiðslugjöld skipa. Verða þau frv. lögð fyrir þingið, og vænti ég þess, að þau verði látin fylgja þessu frv. á sínum tíma.

Það er svo með þetta frv. sem frv. um tekju- og eignarskatt og frv. um verðtoll, að ég geri ekki ráð fyrir, að það finni náð fyrir augum hv. þm. Ísaf. Hann heldur því fram, að allir tollar séu óréttlátir og að hægt sé að afla ríkissjóði nægilegra tekna með einum tekju- og eignarskattinum, auk þess sem það sé miklu einfaldara. En ég vil leyfa mér að benda hv. þm. Ísaf. á það, að hann hefir ekki enn sýnt fram á, að hugmynd hans sé framkvæmanleg. Tekju- og eignarskatturinn er sá skattur, sem mestum sveiflum er háður. Stundum hefir hann verið 700–800 þús. kr., stundum í kringum 2 millj. kr. Og ég er hræddur um það, að ef hv. þm. Ísaf. ætti að sjá fyrir rekstri þjóðarbúsins, mundi hann ekki treysta sér til að standa við stjórn með því að taka allar tekjurnar með tekju- og eignarskatti. Það er gott og blessað að tala um réttlæti, en sá er gallinn, að fullt réttlæti næst aldrei í þessum efnum. Auðvitað er sjálfsagt að reyna að nálgast réttlætið sem mest að hægt er, en ríkið þarf á sínum tekjum að halda, og verður að byggja tekjuvonir sínar á þeim grundvelli, að hægt sé á þær að treysta.

Ég læt þetta nægja, en vildi leggja til, að frv. yrði vísað til fjhn., að lokinni þessari umr.