19.02.1931
Neðri deild: 4. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í C-deild Alþingistíðinda. (1101)

6. mál, tollalög

Haraldur Guðmundsson:

Eins og hæstv. fjmrh. tók réttilega fram, er að því stefnt með þessu frv. að lögfesta gengisviðaukann um tíma og eilífð.

Þegar gengisviðauki fyrst var settur í lög, var honum ekki ætlað svo langt líf. Gengisviðaukinn var settur til bráðabirgða, á þeim tímum, þegar krónan var innan við hálfvirði og sterlingspundi kostaði yfir 30 krónur, og var svo ráð fyrir gert, að hann stæði ekki lengur en meðan sterlingspundið kostaði 28 krónur eða meira. nú hefir sterlingspundið staðið stöðugt í 22.15 kr. í um 5 ár, en gengisviðaukinn hefir ekki verið úr gildi felldur að heldur. Lögin hafa verið framlengd frá ári til árs, þar til nú, að hæstv. stj. og flokkur hennar, í bandalagi við Íhaldsflokkinn, leggur til, að hann verði lögfestur um aldur og æfi. Að vísu er það rétt, að ef á annað borð á að taka gengisviðauka, auk tollanna sjálfra, er eðlilegra og hagfelldara, að tekið sé í einu lagi hvorttveggja, en ekki greint sundur í toll og gengisviðauka með óþarfa amstri og fyrirhöfn, svo sem nú er.

Að þessu sinni skal ég ekki fjölyrða um frv. yfirleitt, en vil þó leyfa mér að drepa nokkuð á nokkra liði, sem ég tel alveg fráleita, og þá einkum á 9., 10., 11. og 12. lið 1. gr. frv.; þar er svo ákveðið, að tollur af kaffibæti skuli vera 75 au. pr. kg., 60 au. af óbrenndu kaffi pr. kg., af brenndu kaffi 80 au. pr. kg. og af sykri og sírópi 15 au. pr. kg.

Eftir verðlagi því, sem var á þessum vörum í fyrra, nam sykurtollurinn þá 66%, kaffitollurinn 60% og tollur af kaffibæti 85%. Er öllum vitanlegt, að verð á öllum þessum vörum hefir lækkað mjög mikið síðan í fyrra. Mun t. d. óhætt að fullyrða, að sykurtollurinn nemi nú meira en 100% af innkaupsverði sykursins.

Hæstv. fjmrh. lét svo um mælt, að aldrei væri hægt að ná fullkomnu réttlæti í tolla- og skattamálum, og virðist mér hann vilja færa þetta sér til afsökunar og afbötunar. En frv. hæstv. ráðh. bera þess lítinn vott, að hann hafi reynt nokkuð til að nálgast réttlæti eða hagsyni í tillögum sínum til tollaálagninga, en hafi hann reynt það, hefir honum mistekizt herfilega.

Þessu til sönnunar vil ég leyfa mér að gera nokkurn samanburð á tillögum hæstv. ráðh. um tollaálagningar á fáeinum vörutegundum. Eftir verðtollsfrv. hæstv. fjmrh. á að leggja á dýrustu skartgripi auðmanna, djásn úr platínu, gulli og silfri, perlur og gimsteina 31.5% verðtoll. En eftir þessu frv. sama hæstv. ráðh. á að leggja á sykurinn, hreina og beina nauðsynjavöru, yfir 100% verðtoll, leggja á hann meira en þrisvar sinnum hærri verðtoll en á gullskraut og gimsteina.

Kaffitollurinn á að verða 60–80% af innkaupsverði eftir þessu frv. hæstv. fjmrh. Samtímis leggur hann til, í frv. um verðtoll, að leggja á dýrustu lóðfeldi, tilbúið hár og silkihatta 31,5%, eða helmingi lægra en á kaffið. Á kaffibæti verður tollurinn um 80–100% af innkaupsverði eftir þessu frv. hæstv. fjmrh. En samkv. frv. sama hæstv. ráðh. um tekju- og eignarskatt á maður, sem hefir 12500 króna tekjur og 5 í heimili, aðeins að greiða um 460 krónur í skatt af þeim. Og af dýrustu vörunum, kampavíni o. þ. h. á tollurinn eftir þessu frv. að vera 30–40% eða aðeins 1/3–2/5 af kaffibætistollinum.

Mér virðist af þessu, að hæstv. fjmrh. hafi lánazt að fara merkilega fjarri því, sem hægt er að kalla réttlæti. Hér eru komin fram þrjú frv. frá honum, og samræmið milli þeirra er þannig, að neyzluvörur og nauðsynjar eins og kaffi og sykur eru yfirleitt tollaðar þrefalt hærra en glysvarningur og dýrustu skartgripir: Álítur hæstv. fjmrh. ef til vill, að þetta sé nauðsynlegra en kaffi og sykur? Eða hefir hann gleypt svo með húð og hári skattamálastefnu íhaldsins að hátolla nauðsynjar, í stað þess að skattleggja gróða og eignir, að hann hirði ekkert um að hafa samræmi í till. sínum?

Hæstv. fjmrh. sagði, að ómögulegt væri að ná öllum tekjum ríkissjóðs með tekju- og eignarskatti, af því að hann væri svo mismunandi eftir árferði. Ég hefi aldrei sagt, að hægt væri að fullnægja tekjuþörf ríkissjóðs með tekju- og eignarskatti. En getur ekki munað einhverju á tollunum? Oft hefir munað meira en 100% á áfengistollinum, og líkt er um fleiri tolla. Ef að er gætt, sest, að margir af tekjustofnunum eru fullkomlega eins óvissir og tekjuskatturinn. Loks er að gæta þess, að það gerir ekki til, þá að tekjur ríkisins verði dálítið misjafnar frá ári til árs, ef hófs er gætt í áætlunum og því ekki eytt jafnharðan, sem umfram fæst á góðu árunum. Ég hefi í öðru frv. bent á leið til að ná vissum tekjum. Enginn skattur er vissari en sá, sem lagður er á fasteignir, sem litlum verðsveiflum eru háðar. Sama er um eignarskattinn líka.

Að lokum skal ég bera þetta frv. saman við tollalög í öðrum löndum. Í Danmörku er tollur á kaffibæti og kaffi 17 aurar á kg. — vitanlega danskir aurar — og á brenndu kaffi 20,7 aurar. Á sykri er hann 10 aur. á kg., en á ódýrari sykri og sírópi lægri, 6,5 aur. á kg. Í Svíþjóð er kaffibætistollurinn 20 aur. á kg., en 40 aur. á óbrenndu kaffi og á brenndu 54 aurar. Þar er sykurtollurinn 10 aurar á kg. á fínum sykri, en 7 aurar og jafnvel 5 á ódýrari tegundum af sykri og sírópi. (MG: Og í Svíþjóð hafa jafnaðarmenn lengi verið við völd! ). Háttv. þm. veit vel, að þeir hafa aldrei haft þingmeirihluta þar, en samt er tollurinn mun lægri þar en her. Í Noregi eru tollarnir: á kaffibæti 30 aur. á kg. og 30 aur. á kg. af óbrenndu kaffi, en á brenndu 54 aurar á kg. Af sykri er tollurinn 20 aurar á kg. eða 5 aurum hærri en hér í frv. Börðu íhaldsmenn það fram, meðan mestur var vegur þeirra og völd í Noregi.

Ég segi hið sama um þetta frv. og hin tvo, sem hér hafa verið til umr. í dag, að ég mun ekki greiða atkv. móti því, að það fari í nefnd. En um leið vil ég láta nefndina vita, að ég hefi sett í prentun annað frv. um breytingar á tollalögunum, sem ég vona, að n. taki til athugunar samtímis þessu.