19.02.1931
Neðri deild: 4. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í C-deild Alþingistíðinda. (1103)

6. mál, tollalög

Haraldur Guðmundsson:

Það er rétt hjá hæstv. fjmrh., að ég hefi í ræðum mínum aðallega drepið á þá hlið, sem snýr að almenningi, er tollana verður að borga. Og það er eðilegt, af því að hér er verið að ræða um frv. hæstv. ráðherra. En ég hefi jafnframt skýrt frá því, að ég muni bera fram hér í hv. deild frv. um tekjuöflun handa ríkissjóði í stað tollanna, og veit ég ekki betur en að hann hafi séð þau, því að ég sendi ráðuneytinu þau til athugunar. Í frumvörpum mínum um tekju- og eignarskatt og fasteignaskatt og um tóbakseinkasölu er bent á tekjuauka, sem mun fyllilega bæta tekjumissi þann: sem lækkun nauðsynjatollanna samkv. tillögum mínum mundu baka ríkissjóði.

Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. einnar spurningar: Álítur hann, að á 40 millj. kr. skattskyldra tekna sé ómögulegt að leggja rösklega 2 millj. kr., þ. e. um 5%? Er réttara að leggja þessar 2 millj. nauðsynjar fólksins og skatta með því lagtekjurnar? (HStef: Hv. þm. gleymir útsvörunum). Já, það lá að, að hv. 1. þm. N.-M. gleymdi þeim ekki. En við fáum vonandi að tala um þau síðar.

Hæstv. fjmrh. spurði, til hvers tollar og skattar væru. Hann svaraði sér sjálfur, að það væri til þess, að ríkissjóður hefði fé til gagnlegra framkvæmda. Vissulega þarf ríkissjóður að fá fé til þess að halda við rekstri þjóðarbitsins og styðja gagnlegar framkvæmdir. (SE: Bitlingarnir verða líka að koma með sköttum). Já, ég skal nú ekki fara út í þá sálma að sinni. En vel skil ég það, að hv. þm. Dal. viti af eigin reynd, hversu bitlingar smakkast og hvaðan þeir koma. — Spurningu hæstv. rh. er og hægt að svara sérstaklega að því er tollana snertir. Yrði þá svarið þetta: Tollarnir eru á lagðir til þess að hlífa stóreigna- og hátekjumönnum við réttmætum gróða- og eignaskatti. Aðalatriðið er þetta: Hvort á heldur að leggja skattana á nauðsynjar og neyzluvörur fólksins eða skuldlausar eignir og tekjur efnamannanna? Því minna sem af þeim er tekið, því meira þarf að leggja á neyzluvörur almennings. Því hafa Framsókn og Íhald svarizt í fóstbræðralag í skattamálunum til að hækka tolla, velta skattabyrðinni á alþýðuna, en hlífa gróða- og eignamönnunum.

Um þá útreikninga hæstv. fjmrh., hvað tapast mundi ef kaffi- og sykurtollur væri afnuminn, en 1000% tollur lagður á gimsteina og þ. h., þarf ég fátt að segja, en ríflega er tapið áætlað af hæstv. ráðh. Hann áætlar það eina millj., en allur kaffi- og sykurtollurinn er áætlaður aðeins 850 þús. kr. í fjárlagafrv. hans. Hvernig þessar 150 þús. kr. eiga að tapast, skil ég ekki.

Ég vil ekki láta ógert að minna hæstv. fjmrh. á það, sem flokksblöð hans og fundapostular hafa oft og einatt haldið fram sem meginverkefni og áhugamáli flokksins, — að lækka dýrtíðina. Mannlega væri það gert, ef flokkurinn og hæstv. stj. snéri að þessu mikla nauðsynjamáli og léti ekki sitja við orðin tóm. Dýrtíðin er óskapleg og kreppan erfiðasta viðfangsefnið, sem við blasir. En mér er óskiljanlegt, hvernig hæstv. fjmrh. ætlar að lækka dýrtíðina eða létta kreppuna með þessum skattafrv. sínum. Þau miða þvert á móti öll að því að auka dýrtíðina. Eftir því, sem hagskýrslur herma, fer a. m. k. tíundi hluti tekna almennings til að greiða tolla. Vöruverð verður því a. m. k. 10% hærra en ella, eingöngu vegna tollanna. Þetta er sú dýrtíð, sem tollarnir skapa. Og dýrtíðin er mest í þessari borg, sem lifir að mestu leyti á aðfluttum vörum. Með því að létta tollum af nauðsynjavörum væri stigið stórt spor í þá átt að minnka dýrtíðina. En með frv. hæstv. ráðh. á að hækka tollana, stiga spor til að auka dýrtíðina. Það er ekki í góðu samræmi við það, sem málsvarar flokks stjórnarinnar hafa látið sér um munn fara nú síðasta kastið.