19.02.1931
Neðri deild: 4. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í C-deild Alþingistíðinda. (1106)

6. mál, tollalög

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég hélt, að ég hefði tekið það atriði fram áður, að tollaukinn á munaðarvörum og á vörutollinum er ekki annar en sá, að bætt er við gengisviðaukanum, og er því aðeins um formsbreytingu að ræða frá því sem nú er.

Um verðtollinn er ekki hægt að segja eins nákvæmlega og ekki hægt að gefa nánari skýrslu um hann en kemur fram í ástæðunum fyrir frv. Ef hv. þm. Vestm. vill lesa aths. við frv., þá fær hann þar þær skýringar, sem enn er mögulegt að gefa.

Ég hafði ekki ætlað mér að svara þeim aths., sem fram hafa komið, en vegna þessarar fyrirspurnar frá hv. þm. Vestm. stóð ég upp, og vil ég þá nota tækifærið og víkja um leið fáeinum orðum að ræðum þeirra hv. þm. Ísaf. og hv. 1. þm. Reykv.

Ég varð að víkja mér frá á meðan hv. þm. Ísaf. talaði, svo að vera má, að ég hafi misst af einhverju, sem ástæða hefði verið að svara. En þegar ég kom aftur inn í d., var hann að gera sér mat úr því, að ég hefði nefnt 2 millj. Í stað 850 þús. En þarna var um mismæli að ræða hjá mér, sem ég leiðrétti þá samstundis. En sannleikurinn er sá, að kaffi- og sykurtollurinn gáfu ríkissjóði á aðra milljón kr. í tekjur. Annars vil ég benda hv. þm. Ísaf. á, úr því að hann fór að gera sér mat úr þessu mismæli mínu, að hann mun einnig hafa mismælt sig, er hann var að boða, að hann ætlaði að leggja fyrir hv. deild frv. um tekju- og eignarskatt, þar sem ríkissjóði yrði séð fyrir rífl. tekjumissi. Hann mun hafa átt við, að ríkissjóði yrði séð fyrir nægum tekjum með frv. En hinsvegar held ég, að honum hafi ratazt rétt á munn, að frv. hans verði einmitt til þess að skerða drjúgum tekjur ríkissjóðs.

Hv. 1. þm. Reykv. talaði á við og dreif, eins og honum er lagið. Af ræðu hans mátti helzt draga, að hann mundi vera farið að langa til að komast í eldhúsið, enda er það nú svo um þennan hv. þm., að hann er alltaf að leita þangað, sem einhverra matfanga er von.

Hann þóttist vera að finna að því við mig, að ég hefði ekki tekið svari nefndar þeirrar, sem frv. hefir samið, út af illu orðbragði hv. þm. Ísaf. Báðir þessir hv. nefndarmenn eru hér viðstaddir, og áleit ég þá færa um að verja sig og því óþarft fyrir mig að hlaupa þar fram fyrir skjöldu. En það er ekki nema gott til þess að vita, að hv. 1. þm. Reykv. skuli vilja styðja smælingjana, enda mun það skylt lífsstarfi hans að safna undir vængi sína þeim, sem bágt eiga.

Annars situr það tæplega á hv. 1. þm. Reykv. að vera að álasa stj. fyrir það, að hún vilji ekki lækka vexti. Hann á sæti í bankaráðinu og á einmitt að fjalla um, hverjir skuli vera vextir þjóðbankans. Stj. ræður þar engu um. Og ef þessi hv. þm. og bankaráðsmaður getur ekki fundið upp hjá sjálfum sér að lækka vextina, þá ætti hann að spara sér umr. um þetta. Að vísu var hann að afsaka sig með því, að engar till. lægju fyrir um þetta mal. En hvaðan ættu eiginlega þær till. að koma, nema frá sjálfu bankaráðinu?