30.03.1931
Neðri deild: 37. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

13. mál, tilbúinn áburður

Hákon Kristófersson [óyfirl.]:

Ég tók ekki eftir því, hvað hv. frsm. sagði, að meint væri með brtt. á þskj. 287 um 3% álagningu á áburðinn, hvort ætlazt er til, að einkasalan fari að græða á þessari verzlun. En ég vil taka það fram, að ef svo er, þá er ég brtt. algerlega mótfallinn. (JS: Þessi 3% eiga aðeins að vera fyrir kostnaði). Fyrst svo er, þá er ég líklega ásáttur með þessa brtt. Ég vildi aðeins vita vissu mína um það atriði, og ef svo er, að þessi 3% eigi að fara til þess að greiða nauðsynlegan kostnað við verzlunina, þá sé ég mér ekki annað fært en að greiða atkv. með brtt.

Hinsvegar get ég tekið það fram, út af ágreiningi milli þeirra hv. þm. Borgf. og hv. þm. V.-Húnv., að ég fellst miklu fremur á skoðun hv. þm. Borgf. Mér finnst, eins og hv. form. landbn. hefir tekið fram, að hér sé ekki um sambærileg mál að ræða, byggingar og ræktun.

Þegar þetta mál var í fyrstu til umr. hér í þinginu, var ég mótfallinn ríkisstyrk til flutnings á áburðinum milli landa; ég taldi hann óeðlilegan, en hallaðist fremur að því, sem nú er komið á daginn, að styrkja þá til flutninga á áburði, sem lengst eiga að sækja til verzlunarstaða.