04.03.1931
Neðri deild: 15. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í C-deild Alþingistíðinda. (1114)

6. mál, tollalög

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég vil þakka hv. fjhn. fyrir fljóta og góða afgreiðslu þessa máls og jafnframt þeirra annara frv., sem næst eru á dagskránni og fylgja eiga þessu frv.

Ég sé að öðru leyti ekki ástæðu til þess að blanda mér inn í þær deilur, sem spunnizt hafa um þetta mál hér í deildinni. Það er um tvær ólíkar stefnur að ræða, sem ekki verða samrýmdar að neinu verulegu leyti, og það verður að ráðast, hvor stefnan verður ofan á við afgreiðslu þessa máls hér í deildinni. Hv. þm. Ísaf. hefir sína sérstöku skoðun á þessu máli, og við því er ekkert að segja. En annars kom ekkert nýtt fram í ræðu hans, enda er þetta mál þrautrætt hér í deildinni, bæði fyrir fáum dögum og á fyrri þingum. Ég mun þess vegna ekki eyða tíma þingsins til þess að blanda mér inn í þær deilur frekar.