04.03.1931
Neðri deild: 15. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í C-deild Alþingistíðinda. (1116)

6. mál, tollalög

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Því fer fjarri, að mér sé í nöp við þessa hreyfingu ungra íhaldsmanna í Reykjavík. Þeir virðast þó vera mun skárri en þeir eldri, t. d. hv. 1. þm. Skagf.; enda er þá að vísu ekki langt til jafnað. Hitt þótti mér dálitið kynlegt, að hafa lækkun tolla á stefnuskrá sinni, en ætla að ná því takmarki með því að styðja Íhaldsflokkinn! Í þessu felst barnaleg mótsögn, því að Íhaldsflokkurinn berst fyrir háu tollunum, eins og kunnugt er. Annars skal ég engum getum að því leiða, hvernig á þessu stendur; það er kannske innanheimilismál, sem ég hefi ekki leyfi til að blanda mér inn í.

Ég get ekki þakkað hv. frsm. meiri hl. svör hans viðvíkjandi mínu frv. Hann sagði, að það væri afgreitt með nál. Því næst spurði hann hv í ég hefði ekki komið fram með brtt. við þetta frv., í stað þess að flytja sérstakt frv. Þetta finnst mér undarlega spurt, því að þeirra frv. gengur einungis út á að lögfesta gengisviðaukann, en í mínu frv. er ekkert slíkt, heldur er þar um gagngerða breyting að ræða á núgildandi lögum.

Hv. frsm. sagði, að mér hefði ekki þurft að koma á óvart afstaða hans til þessa máls. Nei, vissulega ekki. Ég hafði aldrei efazt um afstöðu hans né hv. 1. þm. Skagf., þar sem þeir sömdu þetta frv. saman. Þessi orð hv. frsm. eru alveg út í bláinn.

Þá reyndi hv. frsm. meiri hl. að mótmæla því, að faðmlög Íhalds og Framsóknar í þessu máli væru eins innileg og ég heldi. Hann sagðist hafa flutt með mér frv. um einkasölu á tóbaki í fyrra, sem hefði fengið slæmar viðtökur. Sömuleiðis höfum við samið frv. um verðhækkunarskatt, en það hefir ekki fundið náð fyrir augum hæstv. fjmrh., enda þótt hann hafi tekið tollafrv. meiri hl. skattamálanefndarinnar upp á sína arma.

En þessar röksemdir hv. frsm. sanna ekkert. Hæstv. fjmrh. hefir nú sagt það, sem á vantaði hjá mér til sönnunar því, að stefna Íhalds og Framsóknar í skattamálum sé hin sama. Hann lét svo um mælt, að hér væri aðeins um tvær stefnur að ræða, og á hann þar vitanlega við stefnu okkar jafnaðarmanna, að taka sem mest með beinum sköttum á arði og eignum, og hinsvegar stefnu íhaldsmanna, að taka sem mest með tollum nauðsynja. Stærsti flokkur þingsins, stjórnarflokkurinn, virðist í rauninni enga stefnu hafa, og hefir hér á þingi tekið upp stefnu íhaldsmanna í skattamálum. Þessu hefi ég jafnan haldið fram, og þetta er nú fullsannað með yfirlýsing hæstv. fjmrh.

Hv. 1. þm. Skagf. þótti ég grimmur, að vilja láta lóga þessu frv. nú þegar. Ég get nú ekki talið það neina sérstaka grimmd, og sízt umfram maklegleika. Stundum kemur það fyrir, að frv. eru felld frá 2. umr., en þessu frv. hefir þó verið leyft að ganga til 2. umr., og vona ég, að þar með sé saga þess á enda.

Það er skakkt, að þetta frv. breyti engu frá því sem nú er, eins og hv. 1. þm. Skagf. hélt fram. Með þessu frv. er verið að lögfesta gengisviðaukann, sem annars fellur niður í árslok 1931.

Hv. 1. þm. Skagf. talaði um samvizkubit sitt vegna sinna afskipta af skattamálum. Ég vil ekki bera brigður á það, að hann segi þar satt frá, en mikið má vesalings maðurinn hafa kvalizt af samvizkubiti öll þessi ár, sem hann hefir setið á þingi. En harla lítið hefir hann skipazt við samvizkunnar átölur, og hlýtur samvizkubit hans því að vera orðið krónískt fyrir löngu.

Hv. þm. talaði mikið um það, hversu illt það væri að þurfa að leggja svona mikið á nauðsynjavörur almennings, en hjá því yrði ekki komizt, því að ríkið vantaði fé. En hv. þm. neitar að sjá, að bent hefir verið á aðrar leiðir til þess að afla sömu tekna. Ef frv. mín um tekju-og eignarskatt verða samþ., bætist ríkissjóði minnst 1 millj. kr. tekjur árlega. Að vísu getur tekjuskatturinn munað nokkru frá ári til árs, en fasteignaskatturinn er þrautviss og litlum breyt. háður frá ári til árs, nema þá í hækkunaráttina.

Hv. þm. hélt því fram, að þar, sem jafnaðarmenn hefðu komizt til valda erlendis, hefðu þeir jafnan brugðizt fyrri kenningum sínum í skattamálum. Hér fer hv. þm. með fleipur eitt. Hvaða land getur hv. þm. bent á, þar sem jafnaðarmenn eru í hreinum meiri hluta, annað. en Rússland? En í Rússlandi eru engir tollar. (MG: Eru það þá jafnaðarmenn, sem raða í Rússlandi?) Heimskulega spurt. Þar ráð kommúnistar. En tollana hafa þeir afnumið engu að síður. Slíkt er til eftirbreytni. Ágreiningur jafnaðarmanna og kommúnista er eigi um skattamál. Annars veit hv. þm. það, að þar sem jafnaðarmenn hafa komizt í stjórn, hafa þeir alstaðar beitt sér fyrir lækkun tolla, t. d. í Danmörku, Englandi og Svíþjóð. Í Noregi hafa þeir verið við völd einungis eina viku, og engu áorkað fyrir þá sök. Annars væri gott, ef hv. þm. vildi sanna mál sitt með dæmum, heldur en fleipra með staðlausa stafi um þessa hluti.

Loks sagði hv. þm., að ég legði mikið upp úr þessum 5 aura mun á sykurtollinum. En það eru ekki 5 aurar heldur a. m. k. 230 þús. kr. á ári, sem hér er um að tefla. Auk þess má bæta við 25% álagning verzlana, og verða þetta þá yfir 300 þús. kr. á ári, eða 15 kr. á meðalheimili í landinu, en miklu meira á þau heimili, þar sem lítið er um mjólk og mjólkurafurðir. En muni almenning ekki mikið um þetta, þá munar ríkið því minna um það. Annars væri það eðlilegastur samanburður, hvort réttlatara væri og hagfelldara að taka þessar 230 þús. kr. á þennan hátt eða t. d. með því að koma á einkasölu á tóbaki og eldspýtum og taka sömu upphæð sem heildsölugróða af þeim vörutegundum og létta skattinum á nauðsynjum fólksins sem því nemur.