04.03.1931
Neðri deild: 15. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í C-deild Alþingistíðinda. (1117)

6. mál, tollalög

Magnús Guðmundsson [óyfirl.]:

Það er allsendis rangt hjá hv. þm. Ísaf., að sjálfstæðismenn vilji alltaf hækka tollana; reynslan mælir á móti þessu, enda eru þetta staðlaus ósannindi. Hitt er alveg rétt, að við höfum fulla meðvitund um það, að skaffa þarf fé í ríkissjóðinn, og enda þótt við viljum jafnan átelja óskynsamlega meðferð opinberra fjármuna, þá þýðir ekki að neita um að útvega það fé, sem nauðsynlega þarf.

Þá var hv. þm. að tala um samvizkubit mitt og fór þar með rangfærslur að vanda. Ég hafði aðeins sagt það, að ég vildi, að skattar og tollar væru lægri en nú er, og var þetta mælt af fullri hreinskilni og alvöru. Annars skiptir mig engu, hvað hv. þm. nefnir það, er menn eru hreinskilnir; má vera, að hann hefði gott af að temja sér þá list meira en hann virðist hafa gert til þessa.

Ég lít svo á, að þess sé enginn kostur að afnema tolla að fullu, eins og hv. þm. Ísaf. vildi helzt. En mér virðist eftir atvikum réttast að fara meðalveginn í þessum sökum, og hafa bæði tolla og skatta samtímis, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég sé ekki aðra heppilegri leið, þar sem betur sé tekið tillit til þarfa ríkisins og getu einstaklinganna í senn. Hitt er annað mál, hvað væri æskilegast; við verðum að beygja okkur fyrir staðreyndunum.

Hv. þm. Ísaf. viðurkenndi um daginn, að tekju- og eignarskatturinn væri hærri hér á landi en í öðrum löndum álfunnar, að þeim löndum undanteknum, sem tóku þátt í heimsstyrjöldinni. Þó hafa jafnaðarmenn haft mikil völd víða, t. d. hafa þeir verið við stjórn í tveim af Norðurlöndunum, en alls ekkert gert til þess að fá skattana hækkaða, nema í Danmörku, þar sem eignarskatturinn var hækkaður örlítið í fyrra. Það er þess vegna auðsætt, að hv. þm. Ísaf. er meira í ætt við þá rússnesku en flokksbræður sína á Norðurlöndum.

Ég efast um, að þm. jafnaðarmanna í Danmörku viðurkenni, að ekkert beri á milli sócialdemokrata og bolsjevika í Rússlandi nema aðferðin til að ná markinu, því að engir flokkar berast meir á banaspjót í Danmörku en þeir. (SE: Hvernig er það hér?). Þeir hallast meir að þeim rússnesku hérna, og að því leyti kann að vera, að ég geri þeim rangt til með því að bera skattastefnu þeirra saman við stefnu dönsku jafnaðarmannanna.

Hv. þm. Ísaf. þykist hafa fundið lífselíxir í því að hækka fasteignaskattinn. Ég skal viðurkenna, að hann hefir þennan kost, að hann er innheimtur, meðan fasteignirnar eru óseldar. En svo lengi má halda áfram að hækka hann, að ríkið verði að fara að taka jarðir og hús upp í skattinn. Þá er alveg að því komið, að ríkið taki allar jarðir undir sig. Það er auðvitað það, sem hv. þm. Ísaf. vill. Hann hefir ekki dregið dul á það, jafnvel ekki á fundum í sveitum. Þetta er byrjunin á stafrófi hans. En ég er hræddur um, að ef bændur væru spurðir að, hvort þeir vildu heldur hafa kaffi- og sykurtoll eða gjalda háan skatt af jörðum sínum, þá mundu þeir svara, að þeir vildu heldur hafa það eins og það er. Því að þessi kenning hv. þm. hefir verið sein að vinna fylgi þeirra. (HG: Alltaf að aukast). Já, það hefir kannske verið einn í fyrra, en tveir núna, svo að aukningin er 100%. sízt væri heldur furða, þó að þeir væru tregir, því að fyrir 1000 árum var annar Haraldur, sem vildi taka af þeim jarðir þeirra og gera þá þannig ánauðuga, en þeir vildu heldur flýja hingað út í eyðisker, sem þeir þá kölluðu Ísland, þegar búið var að taka af þeim eignarréttinn. Það má vel vera, að hv. þm. Ísaf. ætli að ná sama valdi og nafni hans í Noregi, en þá held ég, að íslenzkum bændum sé illa úr ætt skotið, ef þeir láta sér það lynda að vera þannig sviptir sínum forna rétti.