04.03.1931
Neðri deild: 15. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í C-deild Alþingistíðinda. (1118)

6. mál, tollalög

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Hv. 1. þm. Skagf. sagði það rangt, að Íhaldsflokkurinn vildi hækka tolla. Ég skil ekkert í þessu. Ég veit ekki betur en að það sé margauglýst stefna Íhaldsflokksins að afla tekna sem allra mest með tollum til þess að hlífa eignum manna og háum tekjum. Það er því alrangt eða a. m. k. villandi, þegar hv. þm. talar í einu um háa skatta og tolla. Því hærri sem tollarnir eru, þeim mun lægri geta beinu skattarnir verið, því að ef hrúgað er sem mestu á innfluttar vörur, er að mestu hægt að komast hjá að leggja á eignir og tekjur. Hér er því bara verið að villa á sér heimildir.

Hv. þm. sagði, að útlendir jafnaðarmenn hafi engar tilraunir gert til að hækka beina skatta. Mig furðar á þessu, því að ég veit ekki betur en að breytingar á sköttunum í þá átt hafi alstaðar í nálægum löndum verið bornar fram af jafnaðarmönnum. Svo var það í Danmörku, Svíþjóð og Englandi. Íhaldsflokkurinn lækkaði skatt á stóreignamönnum síðast þegar hann var við völd í Danmörku um nokkrar millj. króna og sömu millj. voru þá dregnar af þeim styrk, sem öryrkjum og gamalmennum hafði verið veittur. Þegar jafnaðarmannastjórnin kom, var það hennar fyrsta verk að hækka ellistyrkinn og bæta aftur um öryrkjalögin. Ég þori ekki að fullyrða, hvort hún hefir enn komið fram frv. sínum um hækkun á tekjuskattinum. — Þetta snertir að vísu ekki toll á kaffi og sykri, en full þörf er að tala við hv. 1. þm. Skagf. um það síðar.

Hv. þm. hélt, að með fasteignaskattinum hlytu jarðirnar að verða teknar af bændum. Auðvitað má fleygja svona fullyrðingum fram. Skattur af jörðum yrði eftir mínu frv. 0,8% af matsverði. Ég verð að segja, að þá er ættjarðarðarást og frelsisþrá okkar ágætu „sjálfstæðismanna“ mjög farin að þynnast, ef þeir flýja land vegna þess skatts, þegar þeir fá par að auki linun á tolli sem því svarar. Hinsvegar vil ég ekki draga dul á þá skoðun mína, að bezt sé, að jarðir séu ríkiseign, og að ýmsir menn, jafnvel í kjördæmi hv. þm., séu einnig á þeirri skoðun.