09.03.1931
Neðri deild: 19. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í C-deild Alþingistíðinda. (1123)

6. mál, tollalög

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Brtt. mínar við frv. eru á þskj. 103.

1. brtt. er um það, að tollur á kaffibæti lækki úr 75 aurum niður í 40 aura, eða m. ö. o. verði jafn og á óbrenndu kaffi. Fram til 1929 hefir kaffi og kaffibætir verið í sama tollflokki, enda sjálfsagt, að tollurinn sé ekki hærri á kaffibæti, þar sem hann er stórum ódýrari en kaffi. Ég held, að sá mismunur, sem nú er á tollinum, stafi af því, að þegar gengisviðaukinn var felldur af kaffi og sykri, hafi gleymzt að taka kaffibætinn með.

2. brtt. er um að lækka toll á óbrenndu kaffi úr 60 aur. í 40 aur.

3. brtt. er um að lækka toll á brenndu kaffi úr 80 aur. í 50 aur.

4. brtt. er um að lækka toll á sykri úr

15 aur. í 10 aur. Ég hefi áður sýnt, að engar vörur nema vindlingar eru tolllagðar jafnhátt og sykur, þar sem tollurinn nemur 120–130% af innkaupsverði. Að meðaltali munu þær vörur, sem um ræðir, vera tollaðar um 100%. Þessar vörur eru því með álagningu helmingi dýrari en vera þyrfti. Mér dettur ekki í hug að fara að eyða orðum að þeirri firru, að þetta séu óhófsvörur. En ég vil aðeins benda á, að það þarf ekki að rýra tekjur ríkissjóðs, þótt brtt. mínar verði samþykktar. Í Ed. liggur fyrir frv. um einkasölu ríkisins á tóbaki og eldspýtum. Hv. þm. verða nú að gera upp með sér, hvort þeir telja betra og réttlatara að láta almenning greiða tvöfalt hærra verð en þörf er á, eða láta ríkissjóð taka til sin heildsöluálagning örfárra manna af tóbaki og eldspýtum. Um þetta tvennt eiga hv. þm. að velja.