04.03.1931
Neðri deild: 15. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í C-deild Alþingistíðinda. (1135)

8. mál, vitagjald

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Ég get engar upplýsingar gefið um frv. það um vita, sem hv. þm Vestm. talaði um. Enda mun hann ekki hafa ætlazt til þess. — En út af því, að rætt hefir verið um það, til hvers vitagjaldinu ætti að verja, þá liggur það í nafninu sjálfu, að það á einkum að ganga til vitamála. Þó er þetta ekki alveg einskorðað, því í frv. er svo ákveðið — og eins er það í gildandi lögum — að gjaldið falli til ríkissjóðs, en ekki ákveðið, að það leggist í sérstakan sjóð. Ég kannast við það frá fyrri þingum, að borizt hafa kvartanir frá útlendingum um það, að vitagjaldið væri hátt. En þeir munu þó hafa sætt sig við það, þegar þeir fengu að vita, að gjaldinu er öllu varið til þess að gera siglingaleiðir öruggari. Enda er það í raun og veru svo, að þótt þetta sé ekki lagalega bundið, þá er það í hugum allra, að gjaldinu beri að verja á þennan hátt. Í frv. þetta hefir því verið bætt, að gjaldinu megi verja til að gera sjómerki og mælingar á siglingaleiðum. Kemur það skipum engu siður að gagni en vitarnir. Mér er ekki vel ljóst, hvernig hlutföllin á milli vitagjalds og kostnaðar við vita o. þ. h. hefir verið áður. En samkv. LR 1929, þá hafa vitagjöldin það ár verið áætluð kr. 320 þús., en hafa orðið kr. 470 þús. Til útgjalda við vita var áætlað sama ár kr. 265 þús., en þau útgjöld urðu kr. 326 þús., eða lítið eitt hærri en tekjurnar voru áætlaðar. — ég hefi ekki athugað fleiri ár og skal því ekki um það dæma að svo stöddu, hvernig heildarhlutföllin hafa orðið.