11.03.1931
Neðri deild: 21. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í C-deild Alþingistíðinda. (1150)

8. mál, vitagjald

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Ég var því miður ekki við, þegar hv. þm. Vestm. tók til máls, svo að vera má, að hann hafi tekið fram það, sem ég vildi spyrja um, en það er það, hvort með þessari brtt. er ætlazt til, að undir þetta umrædda öryggi á siglingaleiðum geti heyrt hafnargerðir og lendingarbætur. sé svo ekki, þá get ég ekki séð, að þessi brtt. sé nokkur efnisbreyt. frá því, sem stendur í 1. málsgr. 1. gr. frv. Í frv. stendur: „Gjald skal greiða til vita, sjómerkja og til mælinga á siglingaleiðum“, en í brtt. segir: „Gjaldi þessu skal varið til vitamála og annars þess, er tryggir öryggi með ströndum fram“. Þó að ekki séu notuð sömu orðin, þá er merkingin svo lík, að það liggur við, að brtt. sé aðeins endurtekning á frvgr. Hv. þm. Vestm. sagði, að nauðsyn væri að ákveða þetta nánar en í frv. er gert, að allt vitagjaldið gengi til þess, sem ætlað er. Út af þessu vil ég minna á það, að við l. umr. upplýsti hv. 1. þm. S: M., að öllu vitagjaldinu — og meira til — hefði verið varið til vitamála allt til þessa tíma, svo að það virðist engin ástæða til að fara að orða þetta svo stranglega sem gert er í brtt. Það gæti orðið til óþæginda, ef fylgja ætti henni stranglega, því að ef ekki væri á hverju ári varið öllu vitagjaldinu til þessara framkvæmda, þá mætti þegar hefja hótfyndni út af því. Mér sýnist réttast, að frá þessu sé gengið eins og verið hefir, þannig að það geti jafnast á fleiri ár, án þess að það þurfi að sæta aðfinnslum.

Mér þykir þessi brtt. ekki skipta miklu máli og sé því ekki neina ástæðu til að ræða þetta frekar en þegar hefir verið gert.