11.03.1931
Neðri deild: 21. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í C-deild Alþingistíðinda. (1152)

8. mál, vitagjald

Magnús Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég er ekki á sama máli og hv. 1. þm. N.-M. um það, að ekki skipti miklu máli, hvort brtt. á þskj. 127 er samþ. eða ekki.

Mér skilst, að ef frv. er samþ. óbreytt, sé þing og stj. sjálfráð að því á hverjum tíma, hvort vitagjaldinu er öllu varið til þess, sem getið er um í frv.

En ef brtt. á þskj. 127 er samþ., álít ég, að ríkið sé skyldugt til að láta undir öllum kringumstæðum eins mikið fé ganga til vitamálanna og vitagjaldinu nemur. Þess vegna finnst mér það skipta talsvert miklu máli, hvort brtt. er samþykkt eða ekki. Vitagjaldið er vitanlega lagt á í þeim tilgangi,, að það gangi til vitamálanna og þess, er að þeim lýtur. Þó lít ég svo á, að hingað til hafi ríkið ekki verið skyldugt til að verja því öllu þannig. Og ég hygg, að frá byrjun hafi ekki verið varið eins miklu til vitamálanna eins og vitagjaldinu svarar.

Aftur hvað snertir orðalag brtt., þá er ég ekki viss um nema mætti skilja hana á þann veg, að vitagjaldinu megi verja t. d. til hafnargerða og lendingarbóta. Góðar hafnir auka öryggi siglinganna með ströndum fram. Mér skilst þó, að það muni ekki vera tilgangur hv. sjútvn, að vitagjöldin gangi til slíkra mannvirkja.