11.03.1931
Neðri deild: 21. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í C-deild Alþingistíðinda. (1158)

8. mál, vitagjald

Fjmrh. (Einar Árnason):

Þessi brtt. frá hv. sjútvn. virðist allmiklu þrengri heldur en sýnist fljótt á litið, eftir skýringum hv. þm. Vestm. að dæma. Er ég sá brtt. fyrst, skildi ég hana í svipinn eins og hv. 1. þm. Skagf., að þær gætu heyrt undir t. d. hafnargerðir. Ég verð að segja, að ég lit svo á, að góðar hafnir geri siglingar öruggari. (MJ: Það gerir. t. d. góður stýrimannaskóli líka). En um þetta atriði skal ég ekki deila, því hv. n. hefir nú skýrt, hvað fyrir henni vakir.

Þá er um það að ræða, hvort þingið vill fallast á að binda þannig í eitt skipti fyrir öll tekjur, sem ríkissjóður á að fá. Sé það gert á þessu sviði, liggur beint við, að það verði gert víðar, og má þá ekki undir neinum kringumstæðum nota þær sérstöku tekjur til annars en þess, sem í þetta eina skipti er ákveðið. Ég tel mjög varhugavert að fara inn á þá braut, án þess þó að ég vilji mótmæla því, að gott sé að geta varið vitagjaldinu eingöngu til vitamálanna. Það er aðeins stefnan, er hér kemur fram, sem ég vil vara við. Það mætti eins ákveða, að allar símatekjurnar gengju til að fjölga símalínum eða að allar pósttekjurnar gengju til póstsins. Þetta eru allt nauðsynjamál.

Ég gæti trúað því, að það yrði einhverntíma til óþæginda þegar stundir líða, ef farin er sú leið í þessu máli, sem hv. sjútvn. leggur til. Það gæti t. d. orðið ágreiningur um það, hvað heyrir undir að gera siglingaleiðirnar umhverfis landið öruggar, og er ekki ólíklegt, að út af því risu deilur.

En sérstaklega vildi ég vekja athygli á því, að það er ný leið og að mínu áliti mjög varhugaverð, að binda tekjugreinar ríkissjóðs í eitt skipti fyrir öll til sérstakra framkvæmda.