11.03.1931
Neðri deild: 21. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í C-deild Alþingistíðinda. (1161)

8. mál, vitagjald

Magnús Guðmundsson [óyfirl.]:

Mér skildist hæstv. fjmrh. halda, að ég skildi brtt. hv. sjútvn. þannig, að undir hana heyrðu hafnargerðir og þ. u. l. Ég sagði það aldrei. En ég benti á, að þann skilning væri hægt að leggja í brtt. Ég tók fram, að hv. sjútvn. mundi ekki ætlast til, að hún væri skilin á þann veg. Og ég býst ekki við, þó brtt. væri samþ., að hún yrði nokkurntíma skýrð þannig, að nota megi vitagjöldin til hafnarbóta, því þau mundu aldrei duga neitt til slíkra framkvæmda.

Ég er hv. samþm. mínum samdóma um það, að ekki sé rétt að binda þingið til að láta á hverju ári ganga jafnmikið fé til vitamálanna eins og inn kemur í vitagjöldum. Ríkissjóði á að vera heimilt að flytja á milli ára, ef svo stendur á. Ég mun því ekki greiða atkv. með brtt. á þskj. 127. Ekki vegna þess, að ég telji rétt, að ríkið noti tekjur af vitagjaldi til langframa til annars en vitamálanna, heldur af því að ég vil ekki binda þannig tekjur ríkissjóðs.

Það hefir verið minnzt á, að vitagjaldið hér væri mjög hátt, hærra en annarsstaðar. Þetta mun vera rétt. En ég held, að það hafi heldur ekkert land í heimi eins langa strandlengju í hlutfalli við íbúafjölda eins og einmitt landið okkar. Þess vegna er eðlilegt, að vitagjaldið sé hærra hér en annarsstaðar. Ég hefi oft átt tal um þetta efni við útlenda skipstjóra. Það vantar ekki, að þeir hafa kvartað undan þessu gjaldi. En mér hefir alltaf fundizt þeir sannfærast um, að það væri eðlilegt, að vitagjaldið væri hátt hér, þegar ég hefi bent þeim á, hvað strandlengjan er löng, en íbúar landsins ekki nema 100 þús.