27.03.1931
Neðri deild: 35. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í C-deild Alþingistíðinda. (1162)

148. mál, ríkisútgáfa skólabóka

Magnús Jónsson:

Ég þarf varla að standa upp til að láta í ljós skoðun mína á þessu máli; ég hefi svo oft lýst áliti mínu á samskonar málum. Það er óþarfi að vera með nokkra sakleysisgrímu yfir þessu frv.; allir sjá, að það er aðeins lítill angi af prógrammi þeirrar stefnu, að allskonar starfsemi sé betur komin í höndum ríkisins heldur en í höndum einstaklinga. Það má oftast fóðra svona mál í einstökum tilfellum með ýmsu, sem lætur vel í eyrum fjöldans; að sú vara, sem um er að ræða í það og það skiptið, sé svo ákaflega nauðsynleg, fátæklingarnir eigi erfitt með að afla sér hennar, hvað hættulegt sé að láta harðdræga kaupmenn braska með hana o. s. frv. En bak við hlýtur alltaf að liggja sama hugsunin, sú skoðun, að ríkið sé fært um að reka fyrirtækin betur heldur en einstakir menn gera. Sú sannfæring er það eina, sem réttlætt getur að bera fram frv. eins og það, sem nú liggur fyrir.

Ef álitið er, að einstaklingarnir hafi upp úr einhverju, sem þeir hafa tekið sér fyrir hendur, er strax farið að tala um að ná þeirri grein undir ríkið. Þetta er stefna fyrir sig. Þannig mætti taka fleiri og fleiri greinar atvinnulífsins, en það verður að gá að því, að um leið er tekinn frá ríkinu annar tekjustofn, gjöldin, sem á rekstrinum hvíldu áður. Ef haldið er áfram þessa braut, leiðir það brátt út í algerða þjóðnýtingu, að ríkið eigi allt og beri þungann af öllu saman.

Það hefir ekki verið talað um, að bóksalarnir leggi meira á skólabækurnar heldur en þeir þurfa til að geta lifað. Hv. flm. reyndi ekki að færa rök að því, að okrað væri svo á þessum bókum, að nauðsynlegt væri að taka í taumana vegna þess. Slíku er ekki til að dreifa. Hér liggur aðeins á bak við hin alkunna þjóðnýtingarstefna jafnaðarmanna. Lái ég ekki hv. 1. flm., þótt hann vinni þannig að sínum stefnumálum.

Í þessu tilfelli er ekki meiningin að taka gróða til handa ríkinu með einkasölu, heldur aðeins að taka ágóðann af einstaklingunum. Jafnframt er hér svo grímuklædd tilraun til að fá fjárframlag frá ríkinu til þeirra þörfu hluta að útvega skólabörnum bækur. Það atriði má ræða út af fyrir sig, hvort ríkið á að létta undir með fátæklingum að kaupa skólabækur. Það á að athuga á öðrum grundvelli, með öðrum þeim hlutum, sem ríkið þarf að kosta til; þá kemur til greina, hvar brýnust þörf er fyrir það fé, sem ríkið getur af mörkum látið.

Það, sem mér líkar verst við þetta frv., er það, að með því á að taka ágóðann af atvinnu fárra manna til þarfa fjöldans. Hér er eiginlega verið að skattleggja mjög fámenna stétt, bókaútgefendurna, til þess að hjálpa aðstandendum barna. Þessi stétt hefir hér við mjög illa aðstöðu að búa, svo illa, að ég hefi stundum verið að hugsa um, hvort bókaútgáfa mundi ekki alveg leggjast niður hér. Bókaútgefandi einn sagði við mig einu sinni, að starf þeirra væri yfirleitt það, að flytja inn pappír, láta prenta á hann, kosta heftingu og band á bækurnar og geyma þær svo ár eftir ár í dýru húsplássi. Svo kemur ein og ein bók, sem er undantekning frá þessari reglu, sem útgefendurnir fá ofurlítinn arð af. Áhættuminnst mun vera útgáfa skólabókanna, því sala þeirra er jafnari en annara bóka, sem seljast oft ofurlítið til að byrja með, en svo ekki meir. Ég hygg því, að fyrir suma bókaútgefendur sé útgáfa skólabóka nokkur styrkur. Og ef svo er, þá er alls ekki óþarft, að þeir njóti þess stuðnings. Það væri hnekkir, og hann óbætanlegur, ef svo væri búið að bókaútgefendum, að útgáfu bóka legðist niður. Ég sé enga ástæðu fyrir því eða skiljanlegt samband milli þess að taka löglega atvinnu af fáeinum mönnum og hnekkja þar með hag þeirra, til þess að styðja enn aðra menn, enda þótt þeir þurfi máske stuðnings við. Hv. flm. hefir líka í grg. frv. og í framsöguræðu sinni verið að grauta öðru máli saman við þetta. Það er, að bæjar- og sveitarfélög létti undir með mönnum um kaup á skólabókum handa börnum sínum, þar sem þess er þörf. Er sú leið miklu réttari, að gjaldendurnir leggi til þessa í hlutfalli við önnur gjöld, heldur en að lagzt sé á fáa saklausa menn.

Þess er getið í ástæðunum fyrir frv., að þetta sé gert sumstaðar, að útbýtt sé bókum til fátækra barna. En það kemur ekkert þessu frv. við og eru engin meðmæli með því, vegna þess að þá kaupir hið opinbera bækurnar, og fyrir útgefendur er það ekki lakari kaupandi en einstakir menn, nema síður sé. Þetta kemur því hvað öðru ekkert við. Það er náttúrlega lofsvert að létta undir með þeim, sem fátækir eru og hafa börn að framfæra. En sá stuðningur á ekki að koma niður á örfáum mönnum, bókaútgefendunum.

Nú er það svo, að í raun og veru leggur hið opinbera mikið fé fram til menntunar barna og unglinga með því að kosta skólana og kennsluna. Og þótt framfærendur barnanna verði að leggja fram fé til bókakaupa, þá er það ekki tilfinnanlegra en ýmislegt annað, t. d. skófatnaður. (SÁÓ: Skólabörn fá ókeypis skófatnað erlendis!). — Já, ég átti von á því, að svo væri. Vitanlega verður ekki numið staðar við skólabækur. Næst eru skór, þá fatnaður, t. d. þegar kalt er á veturna. Og svo koll af koll, þangað til úr þessu verður fullkomin þjóðnýting og allt endar á því, að enginn hefir neitt til neins. Það má styðja framfærendur barna og skólafólks á allt annan hátt en þennan. Og ég hefi nokkuð sýnt hug minn til þessa með till., er ég kom fram með við frv. um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem veittur er persónufrádráttur fyrir unglinga, sem ganga í skóla.

Þá er enn eitt sjónarmið á þessu frv., sem ég vil athuga nokkuð nánar. — Í 1. gr. er einungis talað um útgáfu á þeim bókum, sem löggiltar eru til kennslu í barnaskólum. En í 7. gr. er talið upp ýmislegt fleira, sem heimilt er að gefa út og selja, þar á meðal aðrar skólabækur en þær, sem löggiltar eru. Hér ber allt að sama brunni. Það er svo sem engin ástæða til þess að hugsa það, að numið verði staðar við þetta, þegar þessi ríkisútgáfa hefir verið sett á fót á annað borð með öllu tilheyrandi. — Í 3. gr. er þess getið, að stj. megi ráða mann eða menn til að sjá um þetta, ef með þarf. Þetta er nú nokkuð einkennilegt orðalag. Er ætlazt til að stj. geri þetta sjálf? Nei, það þarf að taka menn til þessa starfs. Og einmitt af því, að sala skólabóka fer fram á tiltölulega stuttum tíma ár hvert, þá þarf að gefa út og selja aðrar bækur, svo starfsfólk standi ekki uppi verklaust. Þá verða þær bækur teknar, sem menningarsjóður gefur út, þá samvinna bændanna Svo kemur einhver með gott handrit, sem þarf að gefa út, og það er gert. Þarna verður fljótlega um heilt bákn að ræða. Ríkisprentsmiðjan þarf að fá eitthvað til að prenta. Svo verður sett upp bókband og svo verður gefið út og aftur gefið út, svo allir hafi nóg að gera. — Þótt því þetta frv. kunni að vera smátækt eins og það er borið fram, þá verður úr því fyrr en varir stóreflis bákn.

Þá er kostnaðarhliðin. Í frv. er gert ráð fyrir, að útgáfan fái 10 þús. kr. á ári í 5 ár, en lán gegn 6%, ef frekari verður þörf rekstrarfjár. Þótt þetta líti nú ekki mjög stórkostlega út á pappírnum, þá er enginn efi á því, að eftir því sem þetta fyrirtæki stækkar, eftir því verður fjárþörf þess meiri. Og ég er sannfærður um, að þetta mundi kosta mjög mikið. Og hitt er jafnvíst, að verðið mundi ekki lækka mikið. Í frv. er sagt, að þessar bækur eigi að seljast með kostnaðarverði, en slíkt er erfitt að ákveða. Þessi bókaútgáfa yrði sjálfsagt betri við rithöfundana en bókaútgefendur geta verið nú. Það á að vanda til útgáfunnar, sem vitanlega er gott, en kostar fé. Niðurstaðan yrði líklega sú, að bækurnar yrðu ekki ódýrari en nú. Að þær lækki um þriðjung eða helming, nær vitanlega ekki nokkurri átt, nema því aðeins, að mikið sé lagt til þeirra úr ríkissjóði. Það er hálfóviðkunnanlegt orðalag og lítt samrýmanlegt, þar sem talað er um í 4. gr. „að gera útgáfu bókanna ódýra en þó vandaða“.

Gert er ráð fyrir því, að þeir, sem hafa bækurnar til sölu, fái 10% fyrir ómak sitt. Nú hafa bóksalar 25%, og það væri þá nýtt, ef menn vilja hér vinna fyrir lægra kaup fyrir ríkissjóðinn en einstaklinga.

Þá er enn ein hlið þessa máls mjög varhugaverð. Þegar ríkið færi að gefa út skólabækur og skylda menn til að kaupa þær, þá er hætt við því, að áhuginn fyrir því, að selja slíkar bækur upp, mundi standa í vegi fyrir því, að nýrri og betri bækur væru gefnar út, á meðan upplögin væru að seljast. Yrði þá um andlega einokun að ræða, og væri það langhættulegasta hlið frv.

Ég hefi þá dregið fram nokkur rök fyrir því, að frv. þetta getur verið mjög varhugavert. Ég saka þó hv. flm. ekki svo mjög fyrir það, að hafa komið fram með frv., því eftir hans lífsskoðun er vitanlega allt annað um það að segja. Þetta er einn angi af þeirri meginhugsun hans, að ríkið eigi að reka allt og hafa afskipti af öllu. Einmitt af því að ég er á gagnstæðri skoðun í þessu efni, þá verð ég einnig á móti þessu frv. og hefi með þessum orðum gert nánari grein fyrir, hvers vegna ég er það.