11.03.1931
Neðri deild: 21. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í C-deild Alþingistíðinda. (1163)

8. mál, vitagjald

Jón Ólafsson [óyfirl.]:

Það þykir nú e. t. v. koma úr hörðustu átt, ef ég fer að mæla á móti þeirri tilhögun, sem hv. sjútvn. gerir ráð fyrir í brtt. sinni. Ég er þó í því efni samkvæmur sjálfum mér, því á síðasta þingi var ég á móti tveimur till., sem gengu í sömu att, að binda sérstakar tekjur til sérstakra framfara; voru það till. um flugmálasjóð og fiskveiðasjóð. þar var farið fram á að skattleggja sérstakar atvinnugreinar þeim til hjálpar á ákveðinn hátt. Ég tel það viðsjárverða stefnu að skattleggja sérstaklega einn atvinnuveg til þess að styðja hann sjálfan.

Okkar bíða nú svo mörg og margvísleg verkefni á framfarabrautinni, að hvergi sér fram úr. Meðan svo er, verður alltaf að líta á það, hvar þörfin er mest til umbóta í hvert skipti. En sé farið inn á þá braut að skattleggja atvinnugreinar til að styðja þær með sérstaklega og að binda sérstakar tekjugreinar ríkissjóðs til að vinna með að ákveðnu efni, getur það leitt til mjög margvíslegrar togstreitu. Mundu af því rísa deilur um rétt hvers atvinnuvegar til þessara og þessara tekna.

Þó að á mörgum sviðum hafi orðið miklar framfarir hér á seinni árum, held ég, að við höfum hvergi tekið eins stórt stökk, að ekki hafi á neinu sviði verið gerð eins myndarleg tilþrif eins og í vitamálunum. Einnig eru skipin nú að fá tæki, fullkomnari en áður hafa þekkzt, sem auka öryggi þeirra, svo sem miðunartæki, dýptarmæla þannig gerða, að ekki þarf annað en styðja á hnapp til að sjá dýptina, o. fl.

Ég held þess vegna, að þó æskilegt sé, að gert sé meira í þessu, þá er ég sannfærður um það, að hjá okkur séu mörg verkefni, sem kalla eins eftir sínum framkvæmdum eins og þetta, og af þeim ástæðum, sem ég hefi tekið fram, finnst mér ófært að taka út úr heildinni vissar tekjugreinar og ráðstafa þeim fyrirfram. Ég get hugsað mér það, að ef þessu er varið svo frá ári til árs, þá verði ekki nauðsynlegt að halda því áfram. Ég býst við, að því mundi verða svarað, að þá væri hægt að breyta lögunum, en það er eins og ég hefi tekið fram, að það veldur alltaf nokkrum ágreiningi, hvort þetta sé hægt eða ekki, hvort ekki eigi að halda áfram þeim breytingum, sem einu sinni hefir verið byrjað á. Þess vegna hefi ég ekki getað fylgt þessum lofsverða áhuga n. í þessu máli. Og þó ég viti, að hún flytur vilja fjölda og þorra sjómanna, þá get ég ekki hvikað frá þeirri skoðun minni, að þetta fyrirkomulag sé óheppilegt.