27.03.1931
Neðri deild: 35. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í C-deild Alþingistíðinda. (1165)

148. mál, ríkisútgáfa skólabóka

Flm. (Sigurjón A. Ólafsson):

Ég hefi litla ástæðu til að þakka hv. 1. þm. Reykv. ummæli hans um þetta frv., því í stað þess, að ég hefði getað vænzt meðmæla frá skólamanni, sem hafa átti opin augun fyrir nauðsyn þessa máls, þá hefir hann lagzt allfast á móti málinu. Aðalrök hv. þm. gegn frv. voru þau — og um þau snerist öll ræða hans —, að bóksalarnir misstu atvinnu við þetta. Helzt var að heyra, að bókaútgefendur og bóksalar lifðu einkum á útgáfu og sölu skólabóka, og jafnvel eingöngu á þeim. Þess vegna mætti ekki taka af þeim þennan tekjulið. – Þetta voru nú hans aðalrök. Allt hitt voru umbúðir utan um þetta. En ef á skólabækurnar, sem er lögtryggð sala á, leggst það, að halda við lífinu í ekki svo fáum bóksölum, þá held ég að ekki væri úr vegi að leita að annari leið sem væri kostnaðarminni. Staðhæfing hv. þm. um það, að fyrirkomulag frv. leiddi ekki til verðlækkunar á skólabókum, er algerlega órökstudd og fellur í raun og veru um sjálfa sig við þá umsögn hans, að útgáfa og sala skólabóka bæri tapið af annari bókaútgáfu. — 40% sölulaun er líka álitlegur viðbætir á verðið. Og væri hægt að lækka þau um 30%, þá væri þó strax mikið unnið.

Hv. þm. sagði að til væri önnur leið að sama marki og hún væri sú, að styrkja fátæka aðstandendur barna til að kaupa skólabækur. Ég veit nú að heimild er til fyrir því, en mun lítið hafa verið notuð og því að engu verulegu gagni komið, enda hefir íhaldsmeirihlutinn í bæjarstjórn Reykjavíkur sýnt lítinn skilning í þessu efni. Þess munu ekki fá dæmi, að fátækir foreldrar hafi orðið að taka af þeim peningum til kaupa á skólabókum, sem ætlaðir voru og þurftu að ganga út kaupa á nauðsynlegum mat handa fjölskyldunni, sem þá varð að draga við sig nauðsynlegt fæði og föt. Og þetta á jafnt við það fólk, sem fær framfærslueyrir sinn úr fátækrasjóði. Þá átti það víst að vera gamanyrði hjá hv. þm., að næst yrðu heimtaðir skór handa skólabörnunum. — Hv. þm. má gjarnan vita það, að víða í barnaskólum erlendis eru börnunum lagðir til hlýir inniskór meðan á kennslustund stendur. Sumstaðar fá þau líka fæði, svo að þau, frá heilbrigðislegu sjónarmiði séð, geti orðið hæf til námsins. Í þessu sem ýmsu öðru stöndum við Íslendingar aftarlega.

Um bóksalana hefi ég áður talað. Flestir munu reka bóksöluna sem aukaatvinnu. En ég sé heldur ekki, að sú stétt sé svo nauðsynleg að skylda sé að halda henni við með okri á skólabókum. Ég held, að kaupfélög og aðrar verzlanir gætu hæglega haft sölu þessara bóka á hendi gegn 10%.

Að síðustu talaði hv. þm. um að hér væri um andlega einokun að ræða. Ég neita þessu algerlega. Ég veit ekki betur en að fræðslumálastjórnin hafi fullkomið vald til að ákveða, hvaða bækur eru notaðar til kennslu. Það hefir líka verið til umr. í ræðu og riti, hvort ekki ætti að hafa nokkurskonar einveldi á útgáfu á andlegum verkum. Þar gæti maður talað um einokun. — Ég vil ekki lengja umr. meira, en ég vænti þess fastlega, að deildin sjái um að senda frv. í nefnd til athugunar.