11.03.1931
Neðri deild: 21. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í C-deild Alþingistíðinda. (1166)

8. mál, vitagjald

Jóhann Jósefsson:

Það hafa nokkrir fleiri þm. orðið til þess að andmæla till. sjútvn. og telja varhugavert að ákveða meðferð vitagjaldsins eins og farið hefir verið fram á. Hv. þm. N.-Ísf. hefir nú tekið fram ýmislegt af því, sem ég fyrir hönd n., sem er einhuga í þessu máli, vildi sagt hafa. En ég vildi minnast á einstök atriði, og þar með það, að þegar Reykjanesviti var byggður árið 1878, var fyrst ákveðið vitagjald, en þá var almennt litið svo á, að vitagjald af skipum væri ætlað til rekstrar og viðhalds vitanna, en almenningsfé skyldi hinsvegar leggja til kostnaðar við byggingar vitanna. Þetta var hin upphaflega skoðun. En tímarnir hafa breytzt og meira hefir stundum verið tekið af þessu gjaldi til annara þarfa en vel mætti við una ef byggingarkostnaður og rekstrarkostnaður ætti að standast á við vitagjaldið. Gjaldið hefir alltaf farið hækkandi; t. d. var það hækkað 1917, 1919, 1924; sem sé er alltaf verið að herða á þessari skrúfu, og við því er ekki neitt að segja í sjálfu sér, þó að það sé orðið nokkuð hátt vitagjaldið, ef ekki væri neinn bilbugur finnandi á þinginu að verja gjaldinu, eins og hv. þm. V.-Ísf. sagði, í þarfir þeirra, sem þurfa mest á því að halda — sjómannanna. Gjaldið er ekki eftir gefið. Ég get minnzt á, hve hart er eftir því gengið í mínu kjördæmi; menn fá ekki skrásettar skipshafnir á bata sína nema hafi greitt vitagjaldið fyrirfram í byrjun vertíðar. Þó að það sé sjálfsagt, að ríkissjóður fái sín gjöld, þá er hér nú samt fullhart eftir rekið. Hæstv. fjmrh. minntist á pósttekjur og símatekjur í þessu sambandi, en ég held, að það sé ekki sambærilegt, því pósturinn og síminn hafa tekjur fyrir símskeyti og bréfaburð. Það eru ákveðin gjöld, sem greidd eru fyrir ákveðna þjónustu. Það er ekki sambærilegt við vitagjaldið. Svo er ólíkt ástand hvað símasamband er komið hér í gott horf samanborið við vitamálin. Annars hafa verið mikil tilþrif í þessum efnum á þeim áratugum, sem liðnir eru frá því að Reykjanesvitinn var byggður 1878. Það hefir verið unnið stórvirki. En þrátt fyrir það get ég ekki fallizt á það, sem hv. 3. þm. Reykv. virtist halda fram, að hér hafi verið unnið svo mikið, að viðunandi væri. Þess verður að gæta, að samhliða auknum öryggisráðstöfunum aukast kröfur til skipanna, kröfur til sjómannanna og til þeirra, sem stýra. Skip eru meira úti í vondum veðrum sökum þessara öryggisráðstafana. Það dugir ekki að nema staðar við umbætur á þessu sviði vegna þess, að samfara nýtízku öryggisráðstöfunum sé meiru til hætt af hendi sjómannanna. Nú hefir verið bent á það, að undanfarin ár mun hafa látið nærri, að tekjur af vitagjaldi og það, sem ríkissjóður hefir eytt til viðhalds og byggingar vita, hafi staðizt á, en þó hefir verið sýnilegt, hér um bil alltaf, þegar fjárhagsáætlanir hafa verið lagðar fram, að til þess hefir ekki verið ætlazt af stj. Að vísu hefir verið togað út úr þinginu fjárframlag til þessa og hins vita smátt og smátt. Oftast eru lagðar fram fjárhagsáætlanir með litlum umbótum á þessu sviði fyrir augum. Þarf ekki annað en að líta á fjárhagsáætlun, sem núv. stj. hefir lagt fram fyrir árið 1932. Þar á ekki að eyða einum einasta eyri til byggingar vita samkv. till. stj. En þrátt fyrir það er þó áætlað í tekjur af vitagjaldi 375 þús., sem vitanlega verður hærra í reyndinni. Árið 1929 kom í ríkissjóð vitagjald 468 þús. kr., næstum því 1/2 millj. Mér virðist þess vegna, að þeir hv. þm., sem ásamt fjmrh. leggjast á móti till. sjútvn., taki hér ekki rétt á málinu, svo sem baðir hv. þm. Skagf. og hv. 3. þm. Reykv. og 1. þm. N.-M. Þegar fyrir liggur frv. stj. um að verja engu til vitanna, er full ástæða til, að þeir sameini sig um lögfestingu ráðstafana vitagjaldsins, sem verja vilja hagsmuni sjófarenda. Þeim hv. þm., sem eru með þann ugg og ótta í brjósti fyrir því að binda tekjur ríkissjóðs til þjóðnauðsynlegra framkvæmda, þeim hv. þm. vil ég ráða til að beina spjótum sínum þangað, sem þeirra er meiri þörf, sem sé að ekki sé notað fé ríkisins til alveg ósamþykktra og ónauðsynlegra ráðstafana. Mikið meiri ástæð er til að óttast eyðslu frá óhlutvöndum stjórnarvöldum en þótt þingið fallist á að verja vitagjaldi, sem krafizt er af skipum, til þess að koma vitamálum okkar í sæmilegt horf. Það eru ekki til nema 2 miðunarvitar við strendur þessa lands, af heim 11, sem mþn. í vitamálum álítur nauðsynlega. Og þar fyrir utan álítur n. nauðsynlegt að koma upp milli 50–60 öðrum vitum, bæði ljósvitum og hljóðvitum. Ég vil endurtaka þau tilmæli og taka undir það, sem hv. þm. N.-Ísf. sagði, endurtaka þau tilmæli, að hv. dm. greiði atkv. með því, að þessu fé verði varið til öryggið sjófarenda, því það er sorgleg staðreynd, að sjóslys eru hér tíðari en annarsstaðar, og það helzta til að fyrirbyggja þau eru vissulega vitar og góð leiðarmerki. Þó að þetta sé öllum vitanlegt, þá er þó hv. dm. ekki eins ljóst eins og vera ætti, hversu mikil störf eru enn óleyst af hendi við mælingar siglingaleiðanna hér við land. Er tæplega hægt að segja, að farið sé að leggja hönd á plóginn af ríkisins hálfu. En í því efni hvílir skylda á oss, ekki einungis gagnvart vorum eigin sjófarendum, heldur og gagnvart öllum, sem leggja leiðir sínar upp að landinu, bæði innlendum og útlendum. Fyrir nokkrum árum átti ég tal við yfirmanninn á danska varðskipinu um sjávarmælingar. Hann sagði, að sumstaðar við strendurnar væri, sökum framburðar vatna við árósa, svo mikil breyting á botninum, að nauðsynlegt væri að gera mælingar með fárra ára millibili, ef það ætti að teljast öruggt. Þar sem sjútvn. leggur til, að fé sé varið til að mæla siglingaleiðirnar, þá er það eins nauðsynlegt og að byggja vita.