11.03.1931
Neðri deild: 21. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í C-deild Alþingistíðinda. (1169)

8. mál, vitagjald

Pétur Ottesen:

Ég vil aðeins láta þá skoðun mína í ljós, að ég álít, að ákvörðunin um það, hvernig vitagjöldum skuli varið, eigi að sjálfsögðu að vera í þessu frv. Hitt frv., sem hæstv. forsrh. minntist á, er um það, hvar eigi að byggja vita o. s. frv. Þá má benda á það, að sú n., sem samið hefir frv. um vitabyggingar, kveður í till. sínum engu óskýrara á um það, hvernig vitagjaldinu skuli varið, heldur en sjútvn. Annars verð ég að segja, að ég er undrandi og ég stend alveg agndofa yfir því, hve mikill úlfaþytur hefir risið út af þessari till. Hvað er eðlilegra og sjálfsagðara en það, að vitagjaldinu sé varið til að auka öryggi á siglingaleiðum meðfram ströndum landsins, lýsa ströndina og mæla, upp og kortleggja siglingaleiðir á flóum og fjörðum? Til þessa á vitagjaldið allt og óskift að ganga, og einskis annars. Með þessum andmælum eru menn eiginlega að lýsa velþóknun á meðferð núv. stj. á vitagjaldinu, en meðferð hennar er þannig á þessu fé, að ég hefi fyrir mér tölur, sem sýna, hvað vitagjaldið var mikið árið 1928 og hvað miklu af þessu fé var varið til vitanna. mér virðist munurinn ekki vera minni en 200 þús. 1929 skilst mér mismunurinn vera um 140 þús. kr., sem minna hefir verið varið til vita en vitagjaldinu nam þessi árin.

Ég get alls ekki verið fylgjandi þeirri stefnu stj. undanfarin ár að taka það fé, sem ætlað er til vitamála, og verja því til ýmissa óskyldra hluta. Hér er ákaflega mikið eftir að vinna í þessum efnum, og enn skortir mikið á, að búið sé að lýsa upp strendur landsins, svo sem þarf til öryggis og varúðar sjófarendum, og enn er ekki búið að mæla upp hafnir og siglingaleiðir, svo sem vera ber, og enn er óbyggður fjöldi sjómerkja um strendur landsins. Að þessu athuguðu er það fjarri öllu viti og sanngirni að ganga inn á nokkra tilslökun frá því að verja vitagjaldinu öllu til þessara hluta. Ber þess og að gæta, að eftir því sem vitum fjölgar, þá vex að því skapi starfrækslu- og viðhaldskostnaður vitanna, en minnkar að sama skapi það fé, sem varið verður til nýbyggingar vita, að óbreyttu því vitagjaldi, sem nú er. Má og benda á það, að í frv. er stórum fært út það svið, sem upphaflega var ætlazt til, að vitagjaldinu væri varið til, þar sem lagt er til að verja því einnig til mælinga á siglingaleiðum og til byggingar sjómerkja. Að því athuguðu virðist lítil ástæða til þess að hafa í frammi andmæli og tregðu gagnvart till. sjútvn. Þess má geta, að nú hafa verið fundnir upp svokallaðir radiovitar, sem taka hinum eldri ljósvitum langt fram um alla hluti, en eru hinsvegar miklu dýrari. Nauðsyn ber nú til þess, að byggðir séu nokkrir slíkir vitar, því að þeir hafa þá alveg ósegjanlega yfirburði yfir gömlu vitana, að þeir geta leiðbeint yfir margfalt stærra svæði og jafnt í gegnum þoku og dimmviðri sem heiðskíru. Þetta ætti að geta fært mönnum heim sanninn um, að sízt má draga úr fjárveitingum til vitamálanna, a. m. k. um næstu framtíð. Ég þykist ekki þurfa að eyða orðum að þeirri röksemd nokkurra hv. þdm. að vitar séu litt nauðsynlegir hlutir, en þó keyrir nú alveg um þverbak, þegar farið er að tala um það, að skip strandi hvað helzt fast við vitana. Kannske það eigi nú að fara að halda því fram, að vitarnir séu beinlínis hættulegir lífi og öryggi sjófarenda! Það tekur nú steininn úr að fullu og öllu.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta. Aðeins skal ég taka það fram, að enda þótt ég sé því samþykkur, að vitagjöldunum sé varið til vitamálanna, þá er ekki þar með sagt, að endilega þurfi að eyða upp á sama ári öllu því fé, sem ríkissjóði áskotnast á þennan hátt. Slíkt verður vitanlega að fara eftir nánari tilhögun framkvæmdanna, og verður að ætla vitamalastjórninni nokkurt svigrúm til þess að færa upphæðir milli ára, eftir því sem framkvæma þarf meira eða minna eitt árið heldur en annað. Þetta er nánast sagt praktískt atriði, en hitt er meginatriðið, að vitagjöldin renni til vitamálanna, en ekki annað, og það á að lögfesta með þessu frv., ef að lögum verður, ásamt brtt. sjútvn.

Ég vænti svo, að þessar till. nái samþykki hv. d. Út af þeim skilningi, sem komið hefir fram, að samkv. till. sjútvn. gæti verið átt við byggingu hafna og fleira þvílíkt, vil ég segja það, að þetta nær vitanlega engri átt, því þá mætti ekki siður teygja hugtakið svo, að það nái einnig yfir starfrækslu sjómannaskóla, vélstjóraskóla o. s. frv. Þetta eru firrur einar. Gjaldinu á vitanlega að verja til þeirra hluta, sem frv. stj. segir til um og till. miðast við það. (JJós: Rétt). Til þess að koma í veg fyrir frekari misskilning um þetta hefi ég hugsað mér að koma hér með skriflega brtt., sem ég vil leyfa mér að lesa upp og biðja hæstv. forseta að leita afbrigiða fyrir hana. Hún hljóðar svo: „Meginmál till. orðist svo: Gjaldi þessu skal varið til vitamála, sjómerkja og mælinga á siglingaleiðum“.

Eftir því, sem upplýst er um vilja hv. sjútvn., þá er mjög sennilegt, að hún geti fallizt á þessa till. mína.