11.03.1931
Neðri deild: 21. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í C-deild Alþingistíðinda. (1174)

8. mál, vitagjald

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég get ekki látið hjá líða að segja nokkur orð um þetta mál, enda þótt ég eigi næsta erfitt um mál, sökum hæsi.

Hæstv. forsrh. var að tala um störf og till. vitamálanefndar. Mér þykir því eftir atvikum rétt að lesa hér upp, með leyfi hæstv. forseta, till. n. um þessi atriði: „Fé þessu skal fyrst varið til greiðslu kostnaðar við stjórn vitamála og við rekstur, viðhald og umbætur á vitum og sjómerkjum ríkisins. Því, sem afgangs verður, er séð er fyrir þessum kostnaði, skal varið til byggingar nýrra vita eða sjómerkja eða til annara ráðstafana til öryggis lífi sjófarenda og siglingum hér við land“. Þetta er meginkjarninn í till. vitamálanefndar, sem hæstv. forsrh. virðist leggja svo mikið upp úr. N. hefir farið þess á leit við hv. sjútvn., að hún tæki þetta upp í frv. um vitagjald, og telur það ekki fulltryggt, nema ákvæði um þetta séu bæði í þessu frv. og frv. því um stjórn vitamála, sem enn er ekki komið fram, en er nú í vörzlum sjútvn. Mér er ekki kunnugt um það, hve mikill hluti sjútvn. vill fá málið fram, en mig uggir um, að það komi ekki héðan af svo tímanlega fram, að það nái fram að ganga og verða að lögum á þessu þingi. En með því að ég álít þessar till. sjútvn. til stórbóta, þá legg ég ríka áherzlu á, að þær verði samþ., því að gera má ráð fyrir, að þetta frv. verði að lögum á þessu þingi.

Það, sem ágreiningur hefir risið út af í þessu máli, er það, hvort eigi að verja vitagjöldunum samkv. eðli og tilgangi sínum, efnilega til byggingar og starfrækslu vita, til þess að auka öryggi siglingaleiða, til sjómerkja, til þess að mæla upp meðfram ströndum landsins, — og loks er eitt ótalið, sem af vanga hefir fallið burt úr frv., og það er björgunarstarfsemin. Við eigum svo mikið ógert í vitabyggingum og sjómælingum, að það fé, sem við höfum yfir að ráða í þessu skyni, mun varla hrökkva til, til þess að geta bætt úr brýnustu þörfunum á hverjum tíma.

Í fjálagafrv. eru 160 þús. kr. ætlaðar til starfrækslu vita, en vitagjaldið er á sama tíma áætlað 375 þús. kr. Síðastl. ár var vitagjaldið fast að hálfri millj. króna, samkv. bráðabirgða uppgerð hæstv. fjmrh. Þetta eru allverulegar upphæðir, ef þeim væri varið til þess, sem eðlilegast væri og réttast. Við erum fiski- og siglingaþjóð, og það er því geysilegt hagsmunaatriði fyrir okkur, að fá komið vitamálum okkar í viðunandi horf. Erlendar þjóðir hafa veitt því eftirtekt, hversu vitagjaldið er hátt hér á landi, og það hafa borizt kvartanir um það frá útlöndum, að vitgjaldið væri alltof hátt í hlutfalli við það, sem gert væri fyrir vitamálin hér af hálfu hins opinbera. Við erum nú að vísu herrar sjálfir yfir þessum hlutum, en við verðum samt að gefa gætur að því, hvað erlend ríki segja um þessi mál, því það er nánast sagt alþjóðleg skylda að gera eitthvað til öryggis sjófarendum, svo sem með byggingu vita og sjómælingum.

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta frekar, enda er mér tregt tungu að hræra, eins og heyra má, og skal ég því láta máli mínu lokið að sinni.