11.03.1931
Neðri deild: 21. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í C-deild Alþingistíðinda. (1175)

8. mál, vitagjald

Jón Óafsson [óyfirl.]:

Ég get sparað mér að fara mörgum orðum um þetta mál. Þeir menn, sem einkum hafa beitt sér fyrir till. hv. sjútvn., hafa lítið fært fram af rökum til stuðnings sínu máli. Ég verð nú að segja það, og byggi það á gamalli reynslu, að um það leyti, sem ég tók að stunda sjósókn, urðu sjómenn hér syðra að notast við Reykjanestýruna eina, og ég þori að fullyrða það, að þá voru ekki fleiri slys hér við land en nú undanfarin ár, eftir að vitar eru komnir á annaðhvert annes. Ég vil biðja hv. 4. þm. Reykv. að telja saman þau slys, sem orðið hafa frá Reykjanesi að Garðskaga frá því um aldamót, og ætla ég, að þau séu allt að því eins mörg og áður. Það er svo einkennilegt, að það er eins og skipin farist oft og einatt fast upp við vitana, svo að maður gæti nærri því freistast til að halda, að vitarnir hafi óbeinlínis valdið slysunum, sumum hverjum. Það eru líka sorglega mörg dæmi þess, að skip hafa tekið skakka vita og farist fyrir þá sök. Það er nú orðið svo, að menn vilja sem minnst á sig leggja og treysta alveg á þessa vita og þessi merki, og finnst ógerningur að fara hér með ströndum fram nema hafa þessar týrur fyrir framan nefið á sér. Þó ber ekki að skilja orð mín svo, að ég álíti vitana í sjálfu sér óþarfa, heldur það, að tala þeirra má ekki ganga svo úr öllu hófi fram, að sjófarendur eigi örðugt með að greina þá í sundur og finna út, hvaða vita er um að ræða. Hinsvegar ber á það að lita, að fleiri tæki eru nú til en vitar til þess að auka öryggi sjófarenda. Má þar sérstaklega nefna dýptarmæla, sem sýna strax, hve dýpið er mikið, án þess að skipið þurfi að hægja á ferð. Það tæki mun verða öruggast til þess að forðast grynningar og slys af þeim sökum. Sömuleiðis eru það miðunartækin, sem nú eru komin í flest skip. En til þess að loftskeytin komi að gagni að þessu leyti, þarf miðunarstöð í landi, sem enn er ekki komin upp hér. Skip láta sér því nægja enn sem komið er að taka miðun frá öðrum skipum, og kemur það oft að miklu haldi. Það er því margt, sem eykur öryggi sjófarenda nú á dögum, og er það ekki nema gott, svo lengi sent sjófarendur slá ekki slöku við um aðgæzlu fyrir þær sakir.

Eitt af því, sem teflt hefir verið fram sem rökum í þessu máli, er það, að óviðeigandi væri, að þeir, sem mest drýgðu tekjur ríkissjóðsins með greiðslu vitagjaldanna, væru á móti þessari breyt. Þessu og öðru eins er vægast sagt ekki eyðandi orðum að. Ef ætti að fara að vernda fjárhag ríkisins með slíkum ráðstöfunum, þá yrði það einungis til þess að auka á vandræði ríkissjóðsins. Það er líka hrein og bein hugsunarvilla að ætla að lögfesta einstaka tekjuliði, til þess að stj. geti ekki sóað þeim til annara hluta. Það er líkt og ef maður vildi ekkert eiga af því til eru þjófar. Nei, slíkar og þvílíkar bollaleggingar verðskulda ekki að vera teknar alvarlega.

Hv. þm. Borgf. var að tala um úlfaþyt hér í d. út af þessu máli. En mér finnst nú, að sá eini úlfaþytur, sem ég hefi veitt eftirtekt, væri frá honum. Annars var það einkennilegt við ræðu þessa manns, sem talinn er greindur í bezta lagi, hversu hún var óvenjulega óskýr á allan máta. Hann talaði fyrst um það, að hér væri ekki um nýmæli að ræða, heldur væri verið að lögfesta það, sem verið hafi venja til þessa dags. Síðar segir hann þó, að undanfarin ár hafi stórfé verið skotið undan og ekki goldið til vitamálanna, sem þó hafi, samkv. eðli málsins, átt að renna þangað. Ekki ætlast þó hv. þm. til þess, að sú venja sé lögfest. Hér er hv. þm. í mótsögn við sjálfan sig. Það er alveg víst, að vitarnir hafa hingað til ekki gefið það af sér, sem í þá hefir verið lagt, enda þótt vel megi vera rétt, að hin síðustu árin hafi þeir gefið nokkuð af sér fram yfir það, sem til þeirra hefir verið lagt undanfarin ár. Hv. þm. sagði ennfremur, að nýbygging vita myndi minnka um leið og þeim fjölgaði, því að starfrækslukostnaður þeirra ykist við það. Hér miðar hv. þm. við það, að vitagjaldið haldist óbreytt, en það bendir aftur til þess, að hv. þm. geri ráð fyrir algerðri kyrrstöðu í þjóðfélagi okkar, a. m. k. í siglingamálum, því að með auknum siglingum og skipakosti ætti vitagjaldið vitaskuld að hækka. En hv. þm. gerir ráð fyrir öfugri þróun í okkar landi, ef marka má þessi orð hans. En mér er þá ráðgáta, hvað við eigum að gera við allt þetta vitakerfi okkar, ef þvílíkt kyrrstaða er framundan í þjóðlífi og atvinnulífi okkar Íslendinga.

Þetta er, eins og ég hefi tekið fram, alveg gersamlega óviðeigandi að skattleggja vissa grein í sérstöku augnamiði fyrir atvinnuveginn. Það er ekkert vit heldur að taka vissar tekjugreinar út úr og ákveða, til hvers þær séu notaðar eingöngu til síðasta eyris. Það gæti gengið nokkuð langt, ef t. d. tekjur af tóbaki yrðu bundnar þannig, eða því, sem landið græðir af víni, væri varið til bindindisstarfsemi — eða jafnvel öllu heldur til að styrkja þá, sem drekka. (ÓTh: Það væri þó eitthvert vit í því). Hvað yrði þá eftir til okkar sameiginlegu þarfa, ef allar tekjur ríkissjóðs væru rifnar út úr samhengi og ráðstafað þannig? Ekki mundi það bæta úr fátækt okkar og getuleysi. Ekki sízt vegna „principsins“ vildi ég óska, að þessi brtt. yrði ekki samþ., heldur að Alþingi verði hér eftir sem hingað til treyst til að ráðstafa því, sem ríkissjóði áskotnast. Ég get ekki einusinni fallizt á ráð hv. þm. Vestm., að festa tekjurnar til þess að stj. geti ekki sóað þeim. Ekki einusinni þetta getur fengið mig til að hverfa frá þessu lögmáli, og mundi það þó verða tekið til athugunar, ef það breytti málinu mikið.

Hv. þm. Vestm. sagði, að farið væri að gera mjög miklar kröfur til öryggis á sjóferðum. Það er alveg rétt, og sem letur fer eru þær kröfur gerðar til útbúnaðar skipanna ekki síður en vita, og þar standa íslenzk skip mjög hátt; — hafa yfirleitt bezta útbúnað, sem fæst. Hins vegar sýna hin mörgu slys í nánd við sjálfa vitana, að þeir eru ekki einhlítir. Það er náttúrlega gott að hafa týru á nefinu, en það getur jafnvel gert menn að meiri rötum og minni aðgæzlumönnum, ef allt er lagt upp í hendurnar á þeim.