11.03.1931
Neðri deild: 21. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í C-deild Alþingistíðinda. (1178)

8. mál, vitagjald

Pétur Ottesen:

Hæstv. forsrh. vitnaði svo mjög í þessa sérfræðinga, sem hann nefndi svo, í vitamálum, að mig furðaði dálítið. Mér er ekki kunnugt um, að þeir hafi lagt sérstaka stund á vitamál. En hæstv. ráðh. gat ekki lagt neitt annað til málanna en þeirra ráð. Sjútvn. Nd. hvarf alveg í skuggann af þeim. En það hefir nú verið upplýst hér, að í raun og veru eru till. þessarar „sérfræðinganefndar og sjútvn. alveg það sama; aðeins um annað form að ræða. En það kemur ekki neitt fram í áliti þessarar mþn., sem bannar, að bera megi tillögur hennar fram í öðru formi síðar. Nei, aðalatriðið er að koma till. hennar fram svo, að þær njóti sín í verkinu, og ég tel, að sjútvn. hafi hitt á sjálfsögðu leiðina í þessu efni.

Hæstv. forsrh. sagði, að ég hefði átalið sig fyrir að hafa ekki farið út fyrir heimild fjárl. um fjárframlög til vitanna. Væri það í ósamræmi við, að ég og flokksmenn mínir áteldum stj. yfirleitt fyrir of mikla eyðslu. En hvað hefir stj. gert við það af vitagjaldinu, sem ekki hefir farið til vitanna? Hún hefir eytt því öllu til allt annara hluta en vera átti og vitanlega í heimildarleysi. Það fé verður aldrei gripið aftur til þess að byggja fyrir það vita.

Út af ræðu hv. 3. þm. Reykv. get ég verið stuttorður. hjá honum kom það fram, sem ég bjóst ekki við, að vitar væru hættulegir hlutir fyrir siglingarnar. Það yrðu svo mörg slys kringum vitana.

Þá er farið að færa málið inn á annan grundvöll. Þangað til nú hefir verið byggt á því, að vitar væru nauðsynlegir og þess vegna væri rétt að leggja á skatt til að reisa þá sem víðast. Ég verð að benda hv. þm. á, hvað flestir aðrir en hann álita um málið. Hæstv. forsrh. vitnaði til vitamálanefndarinnar, og ég ætla, að hann geti tekið undir það, sem þeir menn þar segja um þetta efni. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa nokkur orð þeirra:

„Eftir upplýsingum, sem nefndin hefir fengið frá Sjóvátryggingarfélagi Íslands, hafa iðgjöld fyrir vöruflutninga lækkað á síðustu 10 árum um 1/2%, og þar sem inn- og útflutningur nemur árlega um 140 millj. kr., samsvarar lækkunin um 700 þús. kr. á ári. Á sama tíma hafa iðgjöld fyrir flutninga- og fiskiveiðagufuskip lækkað um 50%, og mun það samsvara árlegri lækkun:

Fyrir íslenzka vöru- og fólksflutninga

kr. 200000.00

Fyrir íslenzka togara — 200000.00

— — línuveiðara — 50000.00

Alls kr. 450000.00

Eftir því hafa iðgjöld þessi lækkað árlega um 1150 þús. kr., og það mun enginn vafi á því, að þessi sparnaður er að miklu, ef ekki mestu leyti vitunum að þakka, en auðvitað kemur sparnaðurinn öllum þjóðarbúskapnum að góðu“.

Þetta segir n. um þýðingu vitanna fyrir okkur bara í þessu eina atriði.

Hv. þm. talaði um, að ég hefði komið með spádóma um einhverja ægilega kyrrstöðu. Ég sagði ekki annað en að við aukningu vitakerfisins ykist árlega það fé, sem yrði að leggja til rekstrar vitanna og viðhalds. En ef siglingar aukast ekki því meira verður vitanlega að draga úr því fé, sem lagt er til nýrra vita, að óbreyttu vitagjaldi, að sama skapi og rekstrarkostnaður vex. Ef það er þetta, sem hv. þm. hefir þótt óskýrt í ræðu minni, get ég ekki fallizt á, að það sé nein reikningsþraut að skilja, hvað ég átti við. Enn sagði hv. þm. að þessi till. væri hliðstæð við það, ef t. d. því, sem ríkissjóður græðir á vini, væri öllu varið til bindindisstarfsemi. Það væri víst ógurlegt. Já, hver ætli afleiðingin yrði af því? — Ekki nema sú, að það yrði kveðinn niður allur drykkjuskapur í landinu. Við það spöruðust svo margar millj., að ég held, að við yrðum sammála um, að fyrir það fé mætti byggja marga vita og vinna margt þarft á þessu landi.