11.03.1931
Neðri deild: 21. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í C-deild Alþingistíðinda. (1180)

8. mál, vitagjald

Jón Ólafsson [óyfirl.]:

Mér datt í hug, að hv. þm. Borgf. mundi grípa til þess að snúa út úr orðum mínum. Það held ég hann hafi gert af rökþroti. Ég segi vitaskuld ekki, að vitar skaði yfirleitt, heldur að þeir séu ekki einhlítir að varna slysum, þar sem fjölmörg dæmi eru til um þau nálægt vitum. Það eru staðreyndir, sem tala sjálfar. Þeir eru aðeins einn háttur ráðstafana, sem gerðar eru til öryggis fyrir sjóferðir.

Hv. þm. var drjúgur yfir þeim áhrifum, sem aukning vita hefði haft á tryggingargjöld, eftir sögn nefndarinnar. (PO: Já, já): Ég skal ekki gera lítið úr þessari nefnd. Það er eðlilegt, að hún, sem skipuð er til að gera till. um nýja vita, hafi áhuga fyrir því að tína fram allt, sem að einhverju leyti gæti stutt hennar málstað. En ég veit ekki til, að enn hafi tryggingargjöld lækkað af þessum ástæðum. Betri og meiri skipakostur, að ógleymdum loftskeytatækjum, held ég að hafi aukið öryggið mest. En tryggingargjöldin hafa ekki síður lækkað fyrir það, að við gátum skilið við Dani, sem áður voru milliliðir við allar tryggingar okkar. Það eru ekki nema eitthvað 8 ár síðan við losnuðum við þá að nokkru marki, en ég veit ekki til, að Sjóvátryggingarfélagið losnaði alveg fyrr en á síðasta ári undan þeirra „kommandó“. Og ég veit ekki til, að Danir hafi gert neitt til að lækka gjöldin nema fyrir þá köldu samkeppni, sem þeir hafa átt við Englendinga nú síðustu arin. Þegar við stofnuðum samtryggingarfélag botnvörpunga, komust iðgjöldin niður í 4%, en höfðu verið 8% hjá Dönum. Eftir það fóru þeir eitthvað niður vegna samkeppninnar. En að Englendingar hafi hafið hana vegna þess, að nokkrir vitar voru byggðir hér, er misskilningur. Það er allt öðru að þakka. — En ég ætla svo ekki að segja meira um þetta.