11.03.1931
Neðri deild: 21. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í C-deild Alþingistíðinda. (1182)

8. mál, vitagjald

Jón Auðunn Jónsson:

Hv. 3. þm. Reykv. og aðrir hv. þdm. verða að minnast þess, að áður en vitar voru byggðir hér á landi, mátti heita, að við fengjum ekkert skip til að sigla til Norðurlands að vetrarlagi. Vátryggingarfélög þorðu ekki að vátryggja. Fyrst eftir að við höfðum fengið vita á Siglunesi, fengust skip til að sigla þangað möglunarlaust.

Iðngjöldin, sem öll félög taka, eru svipuð, því að bæði dönsk, ensk og þýzk félög eru í sambandi og endurtryggja hvert hjá öðru, en það félag, sem mestu ræður um iðgjaldshæð, er Lloyd í London. Ekkert félag tekur alla áhættuna á sig eitt, heldur endurtryggir í öðrum löndum álfunnar eða jafnvel í Ameríku. Danir hafa því enga sérstöðu.

Hér er farið fram á að taka gjald í alveg sérstöku augnamiði og gengið lengra en í öðrum löndum, með því að láta þetta vitagjald greiða kostnað við sjómælingar líka. Skyldi þá vera fært að taka af því í aðrar þarfir ríkissjóðs?