28.03.1931
Neðri deild: 36. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í C-deild Alþingistíðinda. (1206)

155. mál, verksmiðja til bræðslu síldar

Magnús Guðmundsson:

Ég tók eftir því, sem hæstv. forsrh. sagði, að 65 þús. kr. rekstrarhalli hefði orðið á síldarbræðslunni síðastl. ár. En út af þessu vil ég einnig spyrja hann, hvort verksmiðjan sé búin að greiða til ríkissjóðs það, sem hún á að greiða samkv. lögunum frá 1929.

Ef þessar greiðslur hafa ekki fram farið, þá fer ég að verða hræddur um, að hv. 2. þm. G.-K. hafi áætlað of lágt. Ég skal nú geta þess, að sjálfur hefi ég ekki skýra hugmynd um, hvað rétt er í þessu máli. En ég hefi þá trú, að ekki skakki mjög miklu frá því, sem hv. 2. þm. G.-K. segir, því að allir vita, að hann er gagnkunnugur þessum málum.

Ég fyrir mitt leyti get vel beðið eftir skýrslu stj. verksmiðjunnar, en mér þykir leiðinlegt, að hæstv. ráðh. skuli ekki geta gefið nánari upplýsingar um þetta, eftir að hafa átt tal við stj., þó ekki sé nema í síma, úr því að forstjórinn er ferðbúinn suður hingað með öll plöggin. Ennfremur vil ég spyrja, hvort ríkið eigi nú fé í láni hjá verksmiðjunni, og ef svo er, hve mikið, og einnig hvort tilgangurinn sé sá, að ríkið fái þetta fé aftur. Ég vildi sem sagt fá greinilegt yfirlit yfir það, hvernig ástatt er um hag verksmiðjunnar, en jafnframt býst ég tæplega við, að það sé hægt.

Það var sagt á þingi 1929, að það væri ekki hættulegt fyrir ríkið að fást við síldarbræðslu; enginn átti svo sem að bíða skaða af því. Nú er annað orðið uppi á teningnum.

Þá þykir mér næsta undarlegt, að hæstv. ráðh. skuli telja það óeðlilegt, að bryggjur bili á Siglufirði. Það er nú ekki sérlega óvenjulegt, því það kemur víst varla það ár fyrir, að ekki bili bryggjur þar. Hæstv. ráðh. talaði um, að þetta óhapp gæti orðið okkur einskonar kennslugjald. Ég má segja að það var tekið fram strax í byrjun, að það gæti orðið nokkuð hátt þetta kennslugjald í síldarbræðslu.

Ég hefi heyrt, að hæstv. ráðh. hafi lýst yfir því á búnaðarþinginu, að verðfallið á síldarmjöli hafi numið 360 þús. kr. frá því verksmiðjan tók til starfa og þangað til sala fór fram. Hæstv. ráðh. getur leiðrétt þetta, ef ég fer ekki rétt með, en svona var mér flutt það.

Ég tel líklegt, að ef einstakir menn hefðu orðið fyrir slíku tjóni á síldarbræðslunni og ríkissjóður, þá hefðu þeir farið á hausinn. Og þá þykir mér og sennilegt, að í „Tímanum“ hefði sézt, að einn „braskarinn“ enn hefði farið á hausinn. Þetta ætti að kenna þeim mönnum, sem mest tala um óstjórn á atvinnuvegunum, að það er ekki alltaf brask, sem kemur mönnum til að fara á hausinn.

Ég ætla ekki að fara að lasta stjórn verksmiðjunnar; til þess þekki ég ekki rökin nægilega. En ég vil að lokum segja það, að það er ranglátur dómur, ósanngjarn dómur og óverðskuldaður dómur, að allir, sem illa fer fyrir fjárhagslega, séu braskarar.