28.03.1931
Neðri deild: 36. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í C-deild Alþingistíðinda. (1207)

155. mál, verksmiðja til bræðslu síldar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég er hálfhissa á ofsóknum hv. 1. þm. Skagf. og hv. 2. þm. G.-R. og að þeir skuli ekki geta beðið þangað til þessi gögn verða lögð fyrir sjútvn., þar sem svona stutt er þangað til þetta kemur allt fullkomlega á daginn. Þetta kom að vísu fram í ræðu hv. 1. þm. Skagf. Hann sagði það í sambandi við ákveðna fyrirspurn, að hann gæti vel beðið. Til hvers er þá að spyrja? Er ekki eðlilegt að bíða?

Hinsvegar skal ég játa það, að mér finnst það ranglát ágengni, að verksmiðjan borgi fyrningargjald áður en hún er fulltilbúin. Verksmiðjan starfaði ekki nema með hálfum krafti fyrri hluta síðastl. starfsárs, og aldrei með fullum krafti. Það virðist því ranglátt, að hún borgi öll gjöld á fyrsta ári. Og mér finnst rétt að láta sama gilda um síldarverksmiðjuna norðanlands eins og um mjólkurbúin hér sunnanlands. Það var talið rangt meðan þau voru ekki komin á fót, að krefja þau afborgana.

Þá spurði hv. 1. þm. Skagf., hvort ríkið ætti fé hjá verksmiðjunni. Ég veit ekki betur en hún hafi fengið allt sitt rekstrarfé að láni hjá Landsbankanum eða bönkum.

Það er rétt hjá hv. þm., að ég talaði um verðlækkun afurðanna, sem orðið hafði, á búnaðarþinginu. Mig minnir, að hún hafi verið eitthvað yfir 300 þús. kr. Annars man ég það ekki greinilega nú. En víst er um það, að hún var geysimikil.

Það er rétt, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði, og allir raunar vissu, að það hefir sýnt sig, að það er meiri áhætta að starfrækja síldarverksmiðju en haldið hafði verið fram í upphafi. Kunnugir sögðu, að sala afurða væri svo trygg, að hægt væri að álíta þetta mikla fyrirtæki áhættulítið. Og ég býst við, að þeir hafi haft rétt fyrir sér að því leyti, að ekki hafi komið svona mikið verðfall á síldarafurðum í sögu verksm. á Íslandi, að því líkt verðfall hafi á einu ári orðið á síldarolíu.

Annars mun hv. þm. vita, að ég var ekki hvatamaður þess, að síldarverksmiðjan væri stofnuð. Það var maður, sem þekki þessi mál betur en ég. Það var Magnús heit. Kristjánsson fyrrv. ráðh. Hann áleit þetta skyldu og mestu nauðsyn fyrir sjávarútveginn. Ég er vanari að bera fram kröfur fyrir landbúnaðinn. En hitt held ég, að mér sé jafnóhætt að fullyrða, út frá viðtali við þann mann, sem einna bezta þekkingu mun hafa á þessum málum, að það hafi þegar komið í ljós, þrátt fyrir þessi töp verksmiðjunnar, að hún hafi gefið ríkissjóði svo miklar óbeinar tekjur og orðið að svo miklu beinu og óbeinu gagni, að ekki beri að telja eftir eða iðrast eftir, að ríkið rétti sjávarútveginum þessa hjálparhönd.

Það er náttúrlega alltaf hægt að ráðast að þeim mönnum, sem stjórna, á samkomu, þar sem margir hafa meira og minna takmarkaðan kunnugleika á hlutum þeim, sem um ræðir. Það er hægt að segja, að mistök hafi átt sér stað, og mér dettur ekki í hug að halda, að þeir menn, sem verksmiðjunni stjórna, séu syndlausir. En eftir að hafa talað við ýmsa trúnaðarmenn sjávarútvegsins sem þessum málum eru kunnugir, þá verð ég að álíta, að þessum mönnum hafi farið mjög vel úr hendi starfið við þetta dýra en góða fyrirtæki.