28.03.1931
Neðri deild: 36. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í C-deild Alþingistíðinda. (1209)

155. mál, verksmiðja til bræðslu síldar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég held, að hv. 2. þm. G.-K. hefði ekki þurft að koma með þá yfirlýsingu, er hann gaf síðast í ræðu sinni. Það mun engum dulið, að þessi hv. þm. álítur aðra eiga að skipa sæti ráðherranna heldur en nú skipa þau. Það er nú ekki langt þangað til úr því verður skorið, hverjir eiga að fara með stjórn landsins næstu fjögur árin; ég mun glaður mæta hv. þm. á þeim vettvangi, og skulum við svo spyrja að leikslokum á næsta þingi.

Mér finnst það undarlegt að sækjast svo mjög eftir að ræða þetta mál nú eins og hv. þm. gerir, þegar upplýst hefir verið, að innan örfárra daga koma fram skýrslur frá stofnuninni, sem um er að ræða. Það eru eftir tvær umr. um þetta mál enn í þessari hv. d., ef það fær að ganga áfram, svo það ætti að verða tækifæri til að ræða þetta, eftir að fram eru komnar nauðsynlegar upplýsingar. Það er mjög undarlegt af hv. þm. að draga nú inn í umr. atriði, sem ekki er hægt að deila um, fyrr en plögg liggja fyrir um rekstur verksmiðjunnar. Þótt hv. þm. reki sjálfur síldarverksmiðju vestur við Ísafjarðardjúp, þá getum við ekki talið hann þann yfirvitring á þessu sviði, að við verðum bara að segja já og amen við öllu, sem hann segir um málið, og taka það gott og gilt, þótt ábyggilegar upplýsingar vanti.

Ég skal ekki deila frekar um það, hvaða merkingu orðin „ég ætla“ og „ég býst við“ hafa. Við skulum láta málfræðingana og orðabækurnar um það. Þær munu efalaust telja, að þau merki ágizkun, sem e. t. v. hefir ekki við nein rök að styðjast. Hv. þm. sagði, að ef hann hefði talið, að það léki á tveim tungum um þau atriði, er hann skýrði frá í ræðu sinni, þá hefði það ekki verið sannleikur. En hann mótmælti sjálfum sér með því að segja: Við þurfum að fá öll plögg á borðið um rekstur verksmiðjunnar. Með því viðurkenndi hann, að ekki væri hægt að kveða upp endanlegan dóm um þetta mál, fyrr en skýrslur verksmiðjunnar væru komnar. (ÓTh: Þetta er rétt hjá hæstv. ráðh. Ég er oftast fljótur að játa það, þá sjaldan hann hefir á réttu að standa). Ég bjóst sízt við, að hv. þm. yrði svona fljótur að fallast á mína skoðun. Það er gott fyrir mig, formann Búnaðarfélagsins, sem meira hefi kynnt mér málefni landbúnaðarins heldur en útgerðarinnar, að fá slíka játningu frá formanni togaraeigendafélagsins, þegar um er að ræða hans sérgrein. (ÓTh: Hér var um orðaskýringar að ræða. Játning mín snertir aðeins rökfræðilegt atriði í ræðu hæstv. ráðh.).

Hv. þm. var að tala um fimleikaraun, sem ég hefði gert. Ég hefi nú ekki talið mig mikinn íþróttamann, en mér þykir auðvitað gott að fá vottorð frá hv. þm. um afrek á því sviði, þó ég raunar hafi lítinn vöxt til slíkra hluta.

Ég mótmæli algerlega því, sem hv. þm. sagði um stjórnina á byggingu og útbúnaði verksmiðjunnar. Hann sagði, að þar hefði enginn vitað neitt og hver höndin verið upp á móti annari. Af hálfu ríkisstj. var einum manni falið að veita þessu verki forstöðu. Hann fékk svo með sér útlendan mann, til þess að leggja til hina sérfræðilegu þekkingu. Sá maður hafði verið við að reisa eina eða tvær síldarbræðsluverksmiðjur hér á landi. Sömuleiðis var til aðstoðar innlendur maður, sem ég veit, að sumir hv. þdm. þekkja persónulega að samvizkusemi, og sem hefir sérstaka gáfu fyrir allt það, sem að vélum lýtur.

Það var sjálfsagt að fá íslenzkan mann til að fylgjast með verkinu frá upphafi, til þess að geta síðan gripið til þekkingar hans og kunnugleika til viðgerðar á verksmiðjunni. Ég mótmæli, að hvað þetta snertir hafi ekki verið vel fyrir séð af hálfu ríkisstj.

Hv. þm. talaði um mikið ósamræmi í framkomu minni í sambandi við þau gjöld, sem verksmiðjunni er ætlað að greiða í tryggingarsjóð, fyrningu o. fl., er samtals nema 15%. En þegar málið er athugað nánar, sést það, að ekki er minni ástæða til að sýna fram á ósamræmi hjá hv. þm. sjálfum í þessu atriði. Hann barðist mjög á móti þeim kröfum, að verksmiðjunni yrði, samkv. almennum reglum, gert að greiða gjöld í tryggingarsjóði og fyrningu. En nú finnst honum sjálfsagt að beita fyllsta strangleika laganna og heimta þessi gjöld þegar á fyrsta ári, þó stofnunin væri eiginlega ekki tekin nema að hálfu leyti til starfa og rekstur hennar mætti skoða sem tilraunastarfsemi.

Hv. þm. minntist á, að skipulag það á verksmiðjunni, sem ákveðið var á þinginu 1929. hefði orðið til bölvunar. Um það atriði gæti ég mikið talað við hv. þm., því það fyrsta, sem ég lagði til málanna um þessa verksmiðju, var það, að ég barðist fyrir að koma á hana skipulagi samvinnunnar. Ég get fremur tekið upp deiluna við hv. þm. af þekkingu á því sviði. En það er nokkuð langt utan við það efni, sem hér er til umr., nefnilega hvernig skuli skipa stjórn verksmiðjunnar.

Ég vil geta þess, að eftir þá reynslu, sem fengin er um rekstur síldarverksmiðjunnar, held ég engu síður en áður fast við það, að núverandi skipulag á rekstri hennar sé það rétta, og einmitt með því sama skipulagi eigi að reka hana í framtíðinni. Og það er spá mín, að á næstu árum muni sjávarútvegsmennirnir sumpart neyðast til og sumpart af frjálsum vilja taka upp það skipulag á fleiri og fleiri sviðum atvinnurekstrar síns. Ég held, að mikið af þeim erfiðleikum, sem sjávarútvegurinn hefir nú við að stríða, stafi af því, að sjávarútvegsmennirnir hafa ekki farið að dæmi bændanna í því að taka mátt samtakanna í sína þjónustu, að þeir hafa ekki viljað taka upp skipulag samvinnunnar við sölu og öflun afurðanna. Ég óska og vona fastlega, að þetta fyrsta spor, sem stigið hefir verið í þá átt að koma skipulagi á atvinnu og verzlun sjávarútvegsins að hætti samvinnumanna, verði sjávarútveginum til mikillar blessunar og að það verði upphaf að mörgum breytingum í sömu átt.