23.03.1931
Neðri deild: 31. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í C-deild Alþingistíðinda. (1222)

158. mál, loftskeytanotkun íslenskra veiðiskipa

Magnús Guðmundsson:

Það, sem hér skiptir máli, er vitaskuld það eitt, hvort nauðsyn er á þessari löggjöf, hvort ekki eru til áður í ísl. löggjöf nægileg ákvæði handa ráðh. til þess að fyrirbyggja, að togarar misnoti loftskeyti til landhelgisveiða.

Ég hefi áður látið uppi álit mitt um þetta, því að ég flutti í fyrra þá rökst. dagskrá, sem hér var samþ. Ég hefi ekki breytt um skoðun síðan, hvorki vegna grg. frv. né vegna þeirra skýringa, sem hæstv. dómsmrh. og hv. flm. reyndu að bera fram.

Ég ætla þá eins og í fyrra að ganga gegnum þau lagaákvæði, sem til eru í þessu efni. og vænti þess, að þeir, sem á annað borið vilja taka eftir og sannfærast, hlusti á orð mín, því að þessi lagaákvæði eru óvenjulega skýr.

Eftir l. nr. 82 frá 1917 hefir landið einkarétt á að reka stöðvar eins og skip hafa, og það er aðeins með leyfi stjórnarráðsins, að þau geta fengið að reka slíkar stöðvar. Þetta leyfi er ekki skylt að veita, og þegar það er veitt, má setja fyrir því hvaða skilyrði, sem ráðh. vill. Og þar að auki segir í 2. gr.:

„Ráðuneytið getur bannað öll loftskeytaviðskipti innan ísl. landhelgi, bæði frá íslenzkum og erlendum skipum, og gert þær ráðstafanir, er nauðsynlegar þykja, til þess að banninu verði hlýtt“.

Það er þess vegna eins vel búið um þetta og unnt er. Ekkert skip má hafa loftskeytastöðvar, nema með leyfi ráðh. Það er hægt að setja fyrir leyfinu hvaða skilyrði sem er. Það er hægt að banna þessi tæki hvenær sem er. Og samkv. heimild í lögunum var gefin til reglugerð 17. maí 1918. Þar stendur í 19. gr.: „Einnig getur ráðuneytið látið hafa eftirlit með öllum loftskeytum, látið stöðva þau skeyti, sem að þess áliti geta verið skaðleg velferð landsins“. — Hvernig í ósköpunum er unnt að taka skýrara og greinilegar til orða? Með berum orðum er ráðh. veitt heimild til þess að stöðva öll þau skeyti, sem geta verið skaðleg fyrir velferð landsins. Nú skil ég ekki, að nokkrum blandist hugur um, að það sé skaðlegt fyrir velferð þess, að togarar fari í landhelgi til veiða, þegar ríkið ver 700 þús. kr. á ári til þess að koma í veg fyrir það.

Skýringar þess lögfræðings, sem hæstv. ráðh. vitnar í, hafa því ekki minnstu áhrif á mig. Þær eru ekkert annað en tylliástæður. En það er furðulegt, að frá nokkrum lögfræðingi skuli það koma fram sem mótbára gegn því, að beita megi þessum ákvæðum laganna, að slíkar stöðvar hafi ekki verið þekktar, þegar lögin voru sett. Þá voru að vísu til firðviðskipti, þótt tækin væru af annari gerð. En jafnvel þótt þau hefðu alls ekki verið til, hverjum hefði þá t. d. dottið í hug, að það væri ekki þjófnaður, ef maður tæki útvarpstæki, þó að þau hafi ekki verið til 1869, þegar hegningarlögin voru sett? — Ástæður eins og þessar eru hlægilegar, og það er heppilegt fyrir þann lögfræðing, sem þetta hefir samið, að hans nafns er ekki getið hér.

Mig undrar það stórum, að ef hæstv. ráðh. virkilega álítur misnotkun loftskeytanna eins mikla og hann lætur í veðri vaka, þá skuli hann ekki hafa reynt að nota þessi lagaákvæði, sem nefnd hafa verið. En ef hann telur heimildirnar ekki nægilegar, þá hefði hann þó átt að reyna þetta, því að hefði farið að hans áliti, að þetta væri ekki hægt, þá stóð hann með pálmann í höndunum og gat heimtað þessa löggjöf. Og þá hefði engin fyrirstaða verið. En hitt getur ekki verið annað en þrái, að bera þetta mál fram þing eftir þing.

Hv. flm. vildi helzt, að málið færi ekki til n. Mér finnst þar skjóta dálítið skökku við, því að hann hélt því fram. að nauðsynlegt væri fyrir hv. dm. að athuga það nánara, þar sem þeir hefðu villzt á þessu svo hroðalega á síðustu þingum. Ég vil nú skora á hv. flm. að rannsaka í sjútvn., hvort honum hafi ekki sjálfum missézt í þessum efnum.