23.03.1931
Neðri deild: 31. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í C-deild Alþingistíðinda. (1224)

158. mál, loftskeytanotkun íslenskra veiðiskipa

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Það, sem kom mér til þess að standa upp, var það einkennilega fyrirbrigði, að flm. frv. óskaði eftir því, að málið yrði ekki látið ganga til nefndar. Þetta er því einkennilegra, sem brtt. þær, sem hv. flm. flutti sjálfur á síðasta þingi, og sem miðuðu að því að gera málið aðgengilegra, hafa ekki verið teknar upp í frv., eins og það er flutt nú. Þetta styður þá tilgátu, sem reyndar hefir við mörg önnur rök að styðjast, að þetta mál sé upp tekið sem rógsmál á hendur útgerðarmönnum. Það munu fæstir, sem þekkja til innrætis hæstv. ráðh., trúa honum til þess að fara með slíkt mál sem þetta hlutdrægnislaust.

Samkv. brtt. hv. flm. í fyrra skyldi loftskeytaeftirlitið tekið af dómsmálaráðuneytinu og fengið í hendur landssímastjóra, líkt og venja er víða erlendis. Það hefir þótt ástæða til þess að fyrirbyggja það, að menn eins og hæstv. núv. dómsmrh. geti notað embættisaðstöðu sína til þess að beita andstæðinga sína harðdrægni og hlutdrægni, eða jafnvel skaðað þá stórkostlega. Ég get hvergi fundið neitt ákvæði um það í þessu frv., að þagnarskyldu skuli gætt um þá dulmálslykla, sem stj. fær í sínar hendur samkv. þessu frv. Eins og nú er skipað mönnum í hinum æðstu sætum, þá má við öllu búast. Hæstv. dómsmrh. gæti gefið vildarvinum sínum lyklana, til þess að skaða eigendur skipanna. Það er vitanlegt, að notkun loftskeyta á skipum er að mestu í því fólgin að leiðbeina um fiskigöngur, en ef dulmál það, sem til þess er notað, er gert opinbert, getur það orðið til þess, að skip hrúgist á sama blettinn og spilli hvert fyrir öðru. Slíkt væri alveg ófært.

Í brtt. í fyrra var ennfremur fellt burt það ákvæði frv., að skeytabækur og afrit skeyta skuli send til eftirlits sjútvn. þingsins. Slíkt hefir vitaskuld enga þýðingu, því að nefndirnar gætu ekkert gagn haft af þessu, nema legið mestan hluta þingtímans yfir því, til tafar og trafala fyrir önnur mál og fyrir þingstörf yfirleitt. Einnig var brtt. í fyrra um það, að þung refsing skyldi lögð við fyrsta broti, en ekki missir skipstjóraréttinda. Þetta er nú óbreytt í frv. eins og það var upphaflega. Ég sé því enga ástæðu til þess að meina þessu máli að fara í nefnd til frekari athugunar. Mér virðist hv. flm. ætla að ganga framhjá sínum eigin brtt. í fyrra og keyra málið í gegnum þingið illa undirbúið og illa hugsað, aðeins af þægð við aðalflm. þess og langafa, hæstv. dómsmrh. Það er alkunnugt, að þessi hæstv. ráðh. hefir oft, því miður, notað þetta mál á mjög ógeðslegan hátt, og sakað fjölda alsaklausra manna um lögbrot og ódrengskap. Er þar skemmst að minnast skipta hæstv. ráðh. í sambandi við „Apríl“-slysið í vetur, þegar hann segir það beinlínis, að útgerðarmenn hafi beint skipum sínum inn í landhelgina, meðan varðskipin voru að leita að Apríl. Það vita nú allir, hversu fjarri sannleikanum slík staðhæfing er, og þarf ekki um það að ræða, en hitt er undarlegt, hvers vegna varðskipunum voru ekki send skeyti á dulmáli. samkv. venju, heldur á almennu máli. Ég skal ekki geta þess til, að það hafi verið gert með það fyrir augum að svívirða andstæðingana, en ekki þætti mér það ólíklegt, eftir innræti þessa manns, enda er hann að mörgu misjöfnu kunnur. Hæstv. ráðh. sagði, að menn hefðu kvartað undan því við sig að loftskeytin væru misnotuð til landhelgisbrota, og að hann hefði sagt þeim, að þeir skyldu kjósa þá menn á þing, sem fylgdu þessu frv. En ég býst við, að þessir menn hafi þá hugsað eitthvað á þessa leið: Að fara eftir þínum ráðum um þessa hluti, skulum við fyrst gera, þegar þú ert hættur að taka frá okkur varðskipin, ekki aðeins vikunum saman, heldur og mánuðum saman, eins og undanfarin ár. — Yfirleitt finnst mér öll framkoma hæstv. dómsmrh. í landhelgismálunum minna á þjófinn, sem stokk með þýfið út á stræti og æpi í sífellu. „Grípið þjófinn, grípið þjófinn“. Hæstv. dómsmrh. er að fela sekt sína með því að reyna að benda á aðra, sem eru saklausir. Í stað þess að eyða dýrmætum tíma þingsins til þess að fást við jafnóþarft og ómerkilegt mál og þetta, þá ætti það miklu fremur að setja hið bráðasta lög, sem banna snattferðir varðskipanna og misnotkun þeirra yfirleitt.